Nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála

Fimmtudaginn 11. júní 2009, kl. 12:04:32 (1190)


137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[12:04]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir innlegg hans. Hæstv. ráðherra er rétt að hefja sitt þriðja ár í ríkisstjórn og hefur því haft þann tíma sem liðinn er frá því að hann settist þar til þess að hafa áhrif á aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að styðja við og styrkja peningamálastjórnina.

En við skulum ekki eyða tíma okkar um of í liðna tíma. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar og viðrað hana opinberlega að það hafi ýmislegt farið úrskeiðis í peningamálastefnunni, m.a. þegar ríkisstjórnirnar reyndu að gera of margt á of skömmum tíma. Það er kannski stóri lærdómurinn af því sem gerðist hér undanfarin ár að sígandi lukka er best. Það er ekki hægt að taka út jafnmikinn lífskjarabata og við reyndum að gera á árunum í kringum 2000 og þar til hrunið varð hér á Íslandi.

Það snertir einmitt spurninguna sem hæstv. ráðherra ber upp um það hvort það hafi verið mistök að hækka lánshlutfallið hjá Íbúðalánasjóði upp í 90%. Það eitt og sér var ekki mikill örlagavaldur í þeirri þenslu sem hér varð. En ásamt öllu hinu sem verið var að gera á sama tíma var þetta óraunhæf aðgerð. Þess vegna held ég að hún hafi út af fyrir sig verið misráðin vegna þess að hún kom ofan á svo margt annað sem ekki var til þess fallið að styðja við peningamálastefnuna. Og það sem var að gerast í Seðlabankanum á þessum tíma varð til þess að auka á þensluna sem Seðlabankinn var á sama tíma reyna að slá á.

Þess vegna vil ég nú svara þessu hálft í hvoru játandi. Ein og sér hefði þessi aðgerð ekki verið neitt glapræði en ásamt öllu hinu sem var að gerast á þeim tíma var þetta óskynsamleg aðgerð.