Nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála

Fimmtudaginn 11. júní 2009, kl. 14:11:10 (1230)


137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[14:11]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að farið var út í þá vinnu sem núna liggur fyrir þinginu er sú að það var ekkert heildstætt plan. Það var heila málið. Ástæðan fyrir því að við fórum út í þetta var að okkur fannst ríkja ráðaleysi, dugleysi og hugleysi. Þess vegna var farið út í þetta, það var eina ástæðan.

Þegar ég sá þessa punkta, hvað voru það, 50 punktar á 100 dögum? eða hvað það var, þá hugsaði með mér: Guð minn almáttugur, er þetta það sem bjóða á þjóðinni upp á sem lausn á þeim vandamálum sem íslenska þjóðin á við að glíma núna? Ég býst við að svarið við því sé já.

Síðan eru liðnir 45 dagar og nú er allt kerfið að fara í sumarfrí. Það verður meira rosalega punktaflóðið sem verður hér fyrstu dagana í ágúst ef á að nást að uppfylla þetta. Þetta var algjörlega óraunhæft plan og óhugsað, eða þetta var ekki plan, þetta var hrúga af punktum þar sem lausn á efnahagsvanda þjóðarinnar var að taka kvótann af útgerðunum sem hefur komið sjávarútveginum í stórkostlegt uppnám og komið í veg fyrir framþróun. Ég og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson vorum saman úti í kjördæminu í gær að tala við menn þar í sjávarútvegi. Það kom bersýnilega í ljós að þeir héldu að sér höndum út af óvissu, þeir sögðu það bara beint. Þeir sögðu: Ef ekki væri fyrir þetta værum við á gaddaskónum hlaupandi að leita okkur að tækifærum til að byggja upp og vaxa. (Forseti hringir.) Þetta var mjög góður efnahagspunktur hjá ykkur.