Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 19. júní 2009, kl. 15:23:57 (1748)


137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[15:23]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar spurningar.

Það er alveg rétt, við skulum vera alveg heiðarleg varðandi það að í aðdraganda kosninganna 2007 fór af stað viss þensla sem vill því miður verða á kosningaári. Mörg fyrirtæki eru farin að gera ráð fyrir því að það sé meiri framkvæmdagleði rétt fyrir kosningar. Við skulum ekki gleyma því að bara núna í maí, rétt fyrir kosningar, varð sumum ráðherrum aðeins hált á svellinu og fór jú eitthvað í menningarhúsið o.s.frv. og hefði mátt fara aðeins hægar í sakirnar þar.

Það sem ég gagnrýndi var að strax og Samfylkingin kom til valda eftir kosningarnar 2007 jók hún ríkisútgjöldin um 20%, í staðinn fyrir að draga saman seglin eins og allir sérfræðingar töldu ráðlegt að gera. Það er líka gagnrýnisvert fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hann skyldi halda þannig á málum. Ég man að ég sagði þá í ræðu, nýkominn á Alþingi, að maður þekkti ekki Sjálfstæðisflokkinn fyrir sama flokk vegna þess hvernig hann lét undan Samfylkingunni í þeim efnum.

Ég vil bara taka undir með hv. þm. Skúla Helgasyni um að í mörg ár hefur ekki verið nægilega mikill agi á ríkisfjármálum. Það er hlutverk okkar sem erum ný á Alþingi að breyta því og við verðum að gera það. Ef við breytum því ekki núna munum við missa það tækifæri.