Vandi íbúðakaupenda með myntkörfulán

Mánudaginn 22. júní 2009, kl. 15:22:05 (1831)


137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

vandi íbúðakaupenda með myntkörfulán.

[15:22]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Frú forseti. Ég er til í að íhuga margt en ég ætla ekki að lofa neinu um að niðurstaðan verði eitthvað í líkingu við það sem hv. þingmaður óskar eftir.

Ég vil benda á annað og það má m.a. lesa út úr þessari skýrslu Seðlabankans að stærstur hluti af þeim sem þó eru með erlend lán eru í skilum og reyndar er greiðslubyrðin ekki endilega mjög há hjá þeim öllum í hlutfalli við tekjur vegna þess að það voru alla jafna tekjuhæstu fjölskyldurnar sem tóku erlendu lánin.

Það breytir því hins vegar ekki að þó að einhver hluti eigi ekki í vandræðum er þó hópur fólks í vandræðum og það er sá hópur sem við verðum að horfa á og reyna að gera hvað við getum til þess að bjarga.

Það má vel vera að krónan styrkist ekki á næstu tveimur eða þremur árum en í ljósi þess að lánin eru til 25, 30 eða 40 ára skiptir það kannski ekki alveg öllu máli ef fólk fær að búa í húsunum sínum og er ekki neytt til þess að selja núna þegar gengið er hvað óhagstæðast.