Þjóðaratkvæðagreiðslur

Mánudaginn 22. júní 2009, kl. 20:11:34 (1913)


137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

117. mál
[20:11]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (Bhr) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru ljómandi fínar tillögur hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal. Ef slegnir eru svona varnaglar með 40–50%, ef það eru 10% sem þurfa að kalla eftir atkvæðagreiðslu, væri nokkuð skothelt að laxveiðimenn færu ekki að misnota tækifærið til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslur. Varðandi rafrænar kosningar — nú hefur maður í þó nokkurn tíma getað talið tekjur sínar fram á netinu í gegnum vef skattstjóra þannig að ég hef enga trú á öðru en að rafrænt kosningaform ætti að vera möguleiki miðað við alla þá tæknikunnáttu sem við Íslendingar höfum. Við erum mjög framarlega á því sviði. Ég held að engin þjóð telji fram í jafnháu hlutfalli á netinu og Íslendingar þannig að við getum montað okkur af því.

Ástæðan fyrir því að við lögðum Lýðræðisstofu til var einmitt til að hægt væri að matreiða flókin mál til almennings á einfaldan hátt. Ég verð að segja það fyrir mitt leyti að þeim mun fleiri sérfræðinga sem ég hlusta á, t.d. varðandi ESB, því flóknara verður málið. Það er kannski betra að hafa færri sérfræðinga og fleiri almennar manneskjur að fara í gegnum þessi ógurlega flóknu mál. Það er ekkert mál svo flókið að ekki megi setja það fram á þann veg að fólk skilji það mjög vel.