Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 13:38:08 (2418)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég er í rauninni mjög dapur yfir því að við skulum vera hér að ræða þetta mál því að ég taldi raunverulega eftir að þessir samningar, sem áttu að vera leynisamningar, voru gerðir opinberir að það þyrfti ekkert að ræða þetta, að ríkisstjórnin væri komin í þá stöðu að hún hlyti að draga þetta til baka vegna þess að hver sá sem les þá samninga sem hér um ræðir getur ekki með nokkru móti velt því fyrir sér að styðja samningagerðina. Það þarf ekki annað en einfalda útreikninga til að sjá að þetta stefnir þjóðinni í verulega hættu, getur hreinlega stefnt þjóðinni í þrot og ógnað sjálfstæði hennar.

Það hvernig þetta mál allt saman hefur verið meðhöndlað er líka með stökustu ólíkindum. Það stóð ekki til að Alþingi fengi að sjá þessa samninga sem við erum nú að ræða, en engu að síður átti Alþingi að samþykkja þá. Það er svo sem skiljanlegt eftir að þessir ætluðu leynisamningar voru birtir að ríkisstjórnin hafi ekki viljað að þingið sæi þá, en nú þegar þeir hafa verið birtir sjáum við hversu óaðgengilegir þeir eru. Engu að síður heldur stjórnin því til streitu að reyna að þvinga þetta mál hér í gegn og beitir til þess alveg ótrúlegum málflutningi, málflutningi sem ég hef ekki séð í íslenskum stjórnmálum svo lengi sem ég hef fylgst með þeim og ef maður flettir í sögunni held ég að það þurfi að fara býsna langt aftur til að finna ráðherra sem tjá sig með þeim hætti sem ráðherrar hafa gert í þessu máli. Í rauninni geng ég svo langt — frú forseti, væri hægt að hafa einn fund í salnum? [Hlátrasköll í þingsal.] (Gripið fram í: Bragð er að þá barnið finnur.)

(Forseti (ÁI): Forseti tekur undir þau orð og biður þingmenn að hafa einn fund í salnum.)

Já, ég held einmitt að þeir sem hér voru á rökstólum ættu öðrum fremur að hlusta á það sem ég ætla að segja því að þessi samningur er þess eðlis að ekki er hægt að fallast á hann. Þar af leiðandi er undarleg staða að þurfa að standa hér og færa rök fyrir einhverju jafnaugljósu og því að þessir fráleitu samningar eru óásættanlegir.

Frá því að málið var fyrst kynnt hefur þessi sýndarmennska ríkisstjórnarinnar og blekkingarleikur haldið áfram. Nú þegar hefur komið í ljós að ekki eitt einasta atriði af þeim sem voru nefnd upprunalega sem rökstuðningur fyrir því að samþykkja samningana, sem þá áttu að vera leynilegir, hefur staðist, ekki lagalegt, ekki efnahagslegt, ekkert sem stjórnin kynnti í upphafi hefur staðist. Það var talað um að hugsanlega gætu um 30 milljarðar, ef sæmilega vel gengi, fallið á ríkið. Nú er komið í ljós að bara vaxtagreiðslurnar sem óumflýjanlega lenda á ríkinu verða líklega í kringum 300 milljarðar. Þetta vissi forsætisráðherra ekki fyrir nokkrum dögum þegar ráðherrann var spurður um þetta í þinginu. Svarið var: Það verður bara að koma í ljós. 300 milljarðar til eða frá, það virðist engu breyta um afstöðu ráðherra. Ekkert sem komið hefur fram um málið breytir afstöðu ráðherranna sem halda áfram að reyna að þvinga þingmenn sína til að styðja samning sem þeir vita í raun í hjarta sínu að er stórhættulegur fyrir þjóðina.

Af hverju erum við í þessari stöðu? Það er vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra er búinn að grafa sig svo langt ofan í holu að hann kemst ekki upp, heldur þess vegna áfram að grafa og hefur þar af leiðandi ekki annað fram að færa nú — eftir að vera orðinn rökþrota með allt sem hann sagði í upphafi svo ekki sé minnst á það sem hann sagði áður en hann varð ráðherra — en rökstuðning mótaðila okkar, andstæðinganna í þessu máli. Hér kemur hæstv. fjármálaráðherra Íslands og hefði allt eins getað verið fjármálaráðherra Bretlands miðað við málflutninginn. Hann hélt einfaldlega fram málflutningi andstæðinganna og reyndi ekki með nokkru móti að verja málstað Íslands.

Maður verður dapur að horfa upp á ráðherra landsins tala með þessum hætti og ég sá ekki betur en að það færðist dálítill depurðarsvipur yfir manninn á málverkinu þarna á meðan hæstv. fjármálaráðherra talaði. Þessi málflutningur er alveg ótrúlegur. Ég velti fyrir mér hvernig gengnum Íslendingum sem börðust fyrir sjálfstæði þjóðarinnar, oft við mjög erfiðar aðstæður, og þraukuðu hér væri innan brjósts ef þeir hefðu fylgst einhvers staðar með ræðu hæstv. fjármálaráðherra. Ég held að þeir hljóti að vera a.m.k. jafnsvekktir og ég, mér verður hreinlega orða vant eftir að hafa upplifað þetta.

Svo kemur hér hæstv. utanríkisráðherra og fer með tómt fleipur sem er í rauninni alveg í samræmi við það hvernig þessi umræða hefur öll verið. Ég hef fylgst með málinu alveg frá upphafi og í raun má segja að það hafi verið upphaf þess að ég fór að skipta mér af stjórnmálum. Ég var í samskiptum við stjórnmálamenn alveg frá því um mánaðamótin september/október á síðasta ári. Og þó að það sé ekki hlutverk mitt að verja Sjálfstæðisflokkinn verð ég að segja að ósvífni Samfylkingarinnar í þessu máli er að ná nýjum hæðum hér í dag. Eins og ég segi fylgdist ég með gangi málsins allan tímann og það fór ekkert á milli mála að Samfylkingin var drifkrafturinn í þessu máli, vildi keyra það í gegn, vildi ekki einu sinni heyra lagaleg rök málsins. Það var ekki það að hún teldi þau ekki nógu góð, hún vildi hreinlega ekki heyra þau, það var ekki hægt að þvinga Samfylkinguna til að hlusta á lagaleg rök í málinu. Ég var ekki ánægður með frammistöðu Sjálfstæðisflokksins í málinu, en það fór ekkert á milli mála að það var Samfylkingin sem var leiðandi í þessu undir forustu utanríkisráðuneytisins og svo viðskiptaráðuneytisins. Sú ósvífni sem hér er sýnd af hálfu þessa flokks er algjörlega ólíðandi.

Eins og ég nefndi hafa efnahagsleg rök ekki staðist. Fullyrðingar sem settar voru fram í upphafi hafa reynst rangar og engir útreikningar verið settir fram til að styðja þá fullyrðingu að Ísland geti borið þessar skuldir nema ef vera skyldu tilgátur hæstv. viðskiptaráðherra í blaðagrein í Morgunblaðinu sem nánast allar voru úr lausu lofti gripnar, rangar, meira að segja reiknuð þjóðarframleiðsla út frá gengi evru eins og gengið var fyrir tveimur árum og sú þjóðarframleiðsla borin saman við stærðir nú. Þannig tókst ráðherranum að tvöfalda þjóðarframleiðslu Íslands, það var ein af mörgum reginvitleysum.

Ég ætla nú að reyna að útskýra þetta mál fyrir stjórninni með einfaldri dæmisögu. Við skulum bara ímynda okkur íslenska fjölskyldu einhvers staðar í bæ úti á landi, það má vera á Raufarhöfn. Í þessari fjölskyldu eru hjón, þau eiga nokkur börn og á heimilinu búa amman og afinn og líka einn frændi sem hefur átt erfitt uppdráttar í lífinu og þetta fólk er allt á framfæri fjölskyldunnar. Börnin vinna með foreldrunum, faðirinn er trillusjómaður, hann veiðir fisk og selur og móðirin rekur lítið gistiheimili. Þetta er, hafi menn ekki gert sér grein fyrir því, samlíking við íslensku þjóðina.

Á þessu heimili hefur myndast sá siður að menn skiptast á greiðum fyrir gjaldmiðil og nota til þess matadorpeninga. Samlíkingin er íslenska krónan. Menn skiptast á um að gera greiða, einhverjir á heimilinu sjá um að rækta grænmeti og menn skiptast á hinum ýmsu greiðum, lesa upp úr bókum fyrir ömmu gömlu, fótanudd, hvað sem er á heimilinu er borgað með þessum matadorpeningum. Það er svona innra hagkerfi í þessari fjölskyldu.

Svo er hið ytra hagkerfi. Þessi fjölskylda þarf að afla tekna í íslenskum krónum, sem í þessu tilviki er hin erlenda mynt. Það gerir fjölskyldan með því að selja ferðamönnum gistingu og selja þann fisk sem veiðist. Það er alveg ljóst að sama hversu mikið fætur eru nuddaðir á heimilinu eða hversu mikið grænmeti þarf til þess að skiptast á innan veggja heimilisins, það breytir engu um þann fjölda íslenskra króna sem heimilið aflar. Heimilið þarf þessar íslensku krónur því að það þarf að kaupa hluti að utan.

Nú gerist það að þetta heimili er orðið verulega skuldsett. Það var keyptur nýr bátur, það var ráðist í mikið viðhald á gistiheimilinu og fjölskyldan er töluvert skuldsett en er með töluverðar tekjur af sölu fisksins og af heimilinu. Þessi skuldsetning er orðin slík að það er ekki mikið svigrúm. Jú, eitthvað af því sem er afgangs þarf að fara í að kaupa olíu á skipið svo að hægt sé að halda áfram að veiða og eitthvað af því sem er afgangs þarf að fara í þvottaefni til að þvo af rúmunum á gistiheimilinu svo að það sé hægt að fá ferðamenn. Þegar allt kemur saman er mjög lítið afgangs sem þessi fjölskylda hefur til að fara út í búð og kaupa mjólk eða aðrar nauðsynjavörur.

Hvað gerist svo ef bætist á þessa skuldsetningu vegna þess að einhver fantur kemur og segir: Borgaðu mér pening? Og spurt er: Af hverju? Ja, bara, ég er að innheimta verndargjald til að það fari ekki allt til fjandans á heimilinu þínu, ég get alveg séð til þess. Og heimilisfaðirinn tekur þann pól í hæðina að segja: Ja, verð ég ekki bara að borga, hvað annað get ég gert? Hann ákveður að borga og skuldin bætist á heimilið. Hver er þá staðan? Hvernig ætlar þetta heimili að verða sér úti um fleiri íslenskrar krónur? Það er sama hvað verður gert með matadorpeningana, þeir munu ekki duga til að bjarga fjölskyldunni úr þessu ástandi. Fjölskyldan er lent í skuldafangelsi eins og þessi ríkisstjórn er núna að setja þjóðina í.

Þess vegna skiptir þessi málflutningur ríkisstjórnarinnar um hagvöxt og hlutfall af landsframleiðslu engu máli. Fjölmörg ríki í heiminum hafa lent í þeirri stöðu að skuldsetja sig um of í erlendri mynt en samt með blússandi hagvöxt og næga landsframleiðslu. Það hefur ekkert að segja með þetta.

Afríkuríki, mörg hver, sem tónleikar eru haldnir fyrir til að hvetja stjórnvöld til að beita sér fyrir skuldaniðurfellingu fyrir, skulda kannski 20–25% af þjóðarframleiðslu en Japan skuldar 170%. Skuld Japana er hins vegar í þeirra eigin mynt, þeir geta prentað peningana sjálfir. Afríkuríkjunum, sem skulda hlutfallslega miklu minna, þó að þeirra hagkerfi séu miklu minni, eru allar bjargir bannaðar. Í þessa stöðu er nú verið að setja Ísland.

Þá held ég að mönnum væri hollt að líta til þess sem ég nefndi í upphafi, þeirrar baráttu sem Íslendingar hafa háð og rifja upp til að mynda það sem Halldór Laxness sagði í ræðu fullveldisdaginn 1. desember 1955, með leyfi forseta:

„Það er ekki óalgengt viðkvæði hér á landi nú á dögum þegar talið berst að nauðsyn þess að marka stefnu Íslands sem sjálfstæðs og fullvalda ríkis í einhverju máli að menn segja svo: Ég er þessu máli fylgjandi í hjarta mínu og ég skal reyna að styðja það svo lítið beri á, en ég vil ekki láta bendla mig við það opinberlega því að þá getur verið að ég fái ekki stöðuna sem ég er að hugsa um ellegar missi þá stöðu sem ég hef eða að mér verði synjað um lán.“

Halldór Laxness heldur áfram:

„Það eru heimildir fyrir því að barátta Jóns Sigurðssonar og samherja hans hafi ekki í fyrsta lagi verið háð við hina erlendu nýlendustjórn, heldur einkum og sér í lagi við þá menn hér heima á Íslandi sem hugsuðu og töluðu eins og þeir sem nú vitnað er til. Menn af þessu tagi eru höfuðóvinir sjálfstæðis og fullveldis þjóðar sinnar. Ekki vegna þess að þeir eigi beinan þátt í að ráða landið undir útlendinga, það gera venjulega aðrir sem standa þeim enn þá ofar í mannvirðingum, heldur af því að þeir eru hræddir við að fylgja því sem þeir vita rétt. Það er hörmulegt þegar menn fara að líta á embætti sín, stöður eða lánstraust sem gýligjafir sér til handa fyrir að fylgja fram því sem þeir vita að er rangt.

Þegar einhver álitlegur hópur manna í framáliði þjóðarinnar hefur þannig misst hið innra sjálfstæði, glatað hugmyndinni um manngildi, þá er ekki góðs að vænta. Sjálfstæði þjóðar hefst ekki á fullveldi á pappírnum né í skálarræðum og húrrahrópum, heldur á því að trúnaðarmenn almennings, öngu síður en almenningur sjálfur, þori að vera menn, þori að standa uppi í hárinu á hvaða útlendum erkibiskupi sem er og staðfesta að maður sé Íslendingur eftir þeirri siðferðiskröfu sem í orðinu Íslendingur felst.“

Dugi ekki orð Halldórs Laxness, Nóbelsskáldsins, mætti kannski hæstv. fjármálaráðherra hugsa um orð forsætisráðherra höfuðandstæðinga Íslendinga í þessari deilu, Breta, hér áður fyrr, Winstons Churchills, sem stóð frammi fyrir miklu stærri ógn en Íslendingar núna. Hann hafði ekki áhyggjur af lánstrausti eða lánalínum frá öðrum löndum, hann stóð frammi fyrir þeirri hættu að ríki hans yrði eytt.

Hann sagði þá:

„Við munum standa á okkar, við munum verja okkar þjóð. Þeir hinir, þeir gera þá sitt versta, við gerum okkar besta.“