Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 15:02:22 (2444)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru hreinlega að verða súrrealískar umræður þegar hér kemur upp hæstv. félagsmálaráðherra Árni Páll Árnason og vísar í þessu máli á alla aðra en sjálfan sig. Ég held að mér sé óhætt að segja að enginn hafi verið jafnötull talsmaður Evrópusambandsins í þessu máli frá upphafi og hæstv. ráðherra. Það má í rauninni segja að hann hafi verið drifkrafturinn í þeirri niðurstöðu sem nú liggur fyrir. Að halda því fram að margumrætt minnisblað sé skuldbindandi samningur af hálfu íslenska ríkisins, hvað segir það um viðhorf hæstv. ráðherra til þingsins? Hvert álítur hæstv. ráðherra vera hlutverk Alþingis? Er það bara að ýta á takka fyrir ríkisstjórnina?

Það eru margar fráleitar fullyrðingar í málflutningi ráðherrans. Ein var sú að hann sýndi hér mynd sem átti að sýna hlutfall af útflutningi Íslendinga — þetta er hlutfall af landsframleiðslu — þessari reginfirru sem er verið að reyna að halda fram og ég útskýrði áðan hversu vitlaus væri.