Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 20:15:39 (2533)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:15]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Þau minnisblöð sem vitnað er til frá liðnu hausti og eru af sumum túlkuð sem forveri þess samkomulags sem ríkisstjórnin hefur gert og er til umræðu á hv. Alþingi voru minnisblöð. Þau voru engin skuldbinding. Það er rangt að túlka það svo. Þau voru minnisblöð þar sem aðalatriðið var það að Ísland réði við það sem þyrfti að semja um. Það var varnaglinn sem öll viðmiðunin var. Þessi minnisblöð voru gerð undir því álagi þegar verið var að stöðva innflutning á matvælum til Íslands, olíu til Íslands og ýmsum öðrum nauðsynjum. Því veikara var minnisblaðið sem aðstæðurnar voru erfiðari. Og minnisblað er eitt. Samningar eru annað.

Við ræðum, virðulegi forseti, um samning sem er óbrúklegur. Hann ögrar sjálfstæði Íslands. Hann ögrar eðlilegu lífi á Íslandi inn í framtíðina og þess vegna verður að sporna við fótum.

Árið 1262 töpuðu Íslendingar sjálfstæði sínu þegar þeir gengust undir skattáþján erlendra konunga. Það tók okkur Íslendinga tæp 700 ár að vinna aftur til sjálfstæðis. Síðan eru aðeins liðin 65 ár og það ótrúlega er, virðulegi forseti, að það eru menn, það eru þingmenn á hv. Alþingi sem eru að tapa buxunum í þessari baráttu, tapa strengnum, tapa áttum, tapa metnaði, tapa vakt og vörn fyrir íslenskt sjálfstæði, fyrir íslenskt fólk.

Íslendingar ætla aldrei að verða kotþorp í Evrópu. Til þess hefur ekki verið barist í 1000 ár og gott betur. Margir Íslendingar munu heldur vilja standa á jöklinum einir eftir heldur en lúta þeim lögum, þeim samningum sem hér er verið að ræða, að ég tali ekki um inngöngu í Evrópubandalagið. En allt virðist þetta, virðulegi forseti, því miður fléttast hryllilega saman. Það lyktar af sumu. Það lyktar af gróandanum á vorin og hann er góður. En það lyktar af undirlægjuhætti í þessum samningum, undirlægjuhætti sem Íslendingar eiga ekkert að láta bjóða sér og eiga ekki skilið.

Íslendingar hafa ekki mikla vigt í Evrópu og hafa aldrei haft. En Íslendingar hafa haft sjálfstæða hugsun, þor og þrek, tekið áhættu enda byggt á veiðimannasamfélagi við erfiðar aðstæður, við öflun auðlinda í hafi, ræktun lands og á dugmiklu fólki. Það er rétt sem margir lærðustu menn landsins hafa sagt, til að mynda úr Háskóla Íslands, að það eru engin orð til um þá skuldbindingu sem reynt er að troða upp á Íslendinga í þessum samningum. Það eru engin orð til um það í Evrópubandalagsreglum að svo langt eigi að ganga. (Gripið fram í.) Það eru engin orð til um það. Og af hverju eiga Íslendingar að láta það yfir sig ganga? Það er ótrúlegt þegar maður hefur reynslu af því að vera í mörgum löndum, fylgjast með stíl, stefnum, andblæ, að verða vitni að því að þegar brimar á allan garðinn, allan heiminn þá skuli dekurþjóðfélögin í Evrópu draga sig saman og nota stærstu sleggju sem hægt er að finna til að brjóta eitt lítið egg, Ísland. Það er skelfilegt að upplifa það, það er skelfilegt fyrir Íslendinga, fyrir okkur sem þjóð sem þekkjum fjölskyldusamfélagið, sem þekkjum nálægðina, viljum sýna tillitssemina, þó við séum að mörgu leyti frek og yfirgangssöm þá er það samt í eðli okkar að sýna nærgætni við náungann þó að við mættum ugglaust kunna betur með það að fara. En það er alveg klárt mál að Evrópuþjóðirnar kunna það ekki. Við erum langt á undan þeim í þeirri framkomu og gott er að vitna til Færeyinga sem bera af öllum þjóðum sem við höfum samskipti við í því að kunna að koma fram við fólk, maður við mann, maður við mann án þess að brjóta og bramla allar reglur, alla möguleika, allt sem um er að ræða og skiptir máli.

Það lyktar af því að sá undirlægjuháttur sem hér er fjallað um sé eins konar farseðill Íslands inn í Evrópubandalagið. Það er dýr farseðill ef hann kostar sjálfstæði þjóðarinnar. Það er örugglega rétt sem hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að þetta mál er feikilega erfitt. En það samkomulag sem búið er að leggja á borðið gengur … (Gripið fram í: Gengur ekki upp.) Það bara gengur ekki upp. Þess vegna verður að stöðva þetta samkomulag og knýja á um betra samkomulag sem Íslendingar ráða við án þess að vera á hnjánum næstu áratugina, án þess að vera á hnjánum, undirmálsfólk í Evrópu. Það hafa margir bilað í þessum leik, bæði embættismenn og stjórnmálamenn. Heilu löndin hafa bilað. Svo þarf að finna blóraböggulinn. Ísland getur ekki verið blóraböggull í þessu. Það er ekki hægt. Það er nú ekki flóknara en svo. Ættu þessir stórbrotnu jaxlar í Evrópu ekki að sýna einhvern manndóm til þess að bjóða hluti sem þeir gætu verið stoltir af í stað þess að nota sleggjurnar og hoppa á íslenskri þjóð eins og kengúrur? Eins og kengúrur hafa þeir hoppað á maríuerlunni Íslandi í öllu þessu máli.

Brotalamirnar í reglum Evrópubandalagsins, í flæði banka um allt Evrópubandalagið eru náttúrlega slíkar að Íslendingar geta ekki borið ábyrgð á þeim. Það er engin tilviljun þegar upp er staðið frá hausti að Evrópubandalagið vilji breyta þessum reglum. En það á að hengja þann minnsta í snöruna svo þeir geti glaðst yfir því að það ruggast ekki báturinn hjá þeim. Um þetta verðum við að hugsa og við þessu verðum við að bregðast.

Að hafa ekkert þak á greiðslum í þessum samningi gengur ekki. Óútfyllt ávísun öll á ábyrgð Íslands gengur ekki. Vextirnir eru of háir. Það er engin spurning og þegar talað er um að 75–95% af eignum Landsbankans eigi að borga Icesave-skuldirnar, af hverju buðu þá ekki þessir háu herrar, virðulegi forseti, að það yrði samið um einhverja ákveðna tölu, farin millileið sem var dýrkeyptari fyrir Ísland í áhættu heldur en Evrópuþjóðirnar, farin einhver 85% leið, samningaleið um ákveðna tölu. Nei, nei, það stóð bara ekkert til. Þeir halda áfram í hlutverki kengúrunnar.

Við getum ekki samþykkt nauðgun á Íslandi. Það komu glaðbeittar stúlkur á þjóðhátíðina í Eyjum fyrir nokkrum árum, hressar og galvaskar með kaldhæðinn húmor eins og Íslendingum er lagið. Þær voru í bolum með prentaða áletrun: „Berjumst á móti nauðgunum. Segjum bara já.“ Auðvitað meintu þær ekki það sem þær settu á bolina. Við getum ekki sagt bara já við Evrópuþjóðirnar þegar þær eru að keyra yfir íslenska þjóð, íslenska framtíð, íslenskt sjálfstæði sem skiptir öllu máli, íslenskt fullveldi og íslenskt sjálfstæði. Það er engin spurning að þegar búið verður að fella þennan samning sem við erum nú að ræða þá munu menn auðvitað halda áfram viðræðum. Það eru engin fordæmi fyrir öðru í alþjóðlegum samskiptum. Það er algerlega út úr kortinu að hóta því að málið sé búið og dautt. Þetta er bara ekki svo einfalt mál eins og það er vaxið. Við þurfum harðskeytta og þjálfaða samningamenn, erlenda samningamenn. Það væri til að mynda hægt að nefna mörg nöfn harðskeyttra breskra sérfræðinga í alþjóðasamningum sem gætu tekið þetta hlutverk að sér fyrir okkur. Við sveitamennirnir brugðumst í þessum samningum. Við vorum of saklausir, allt hið mætasta fólk með góðan vilja en það vantaði harðsvíraða afstöðu, óprúttna afstöðu eins og kaupin ganga fyrir sig á eyrinni í alþjóðlegum samningum.

Virðulegi forseti. Við erum að véla um fjöregg Íslands í þessari umræðu. Við erum að véla um það að íslensk æska, íslenskt fólk sem þarf að horfa til framtíðar með von og gleði hafi vilja til að rísa undir því. Það er ekkert sjálfsagt. Það hefur reyndar aldrei verið sjálfsagt að við héldum sjálfstæði okkar. En nú reynir á það í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins. Við stöndum í hörðustu sjálfstæðisbaráttu í sögu íslenska lýðveldisins. Hún stendur núna yfir, tvíþætt, Icesave-samningarnir og Evrópubandalagið, ljónið sjálft. Valdbeiting Evrópubandalagsríkjanna gagnvart Íslandi er höfuðskömm. Hún er einstæð í hinum vestræna heimi. Það eru engin dæmi til um slíkan yfirgang. Gamla setningin, virðulegi forseti, „kære venner og brødre“ um Norðurlöndin er farin til fjandans. Hún er dauð og ómerk. Yfirlýsing í gær frá Norðurlöndunum ásamt Íslandi um að fallast á þann vilja Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópubandalagsins að taka Ísland í gíslingu er meira en skömm. Hún er svo skítug að það er með ólíkindum. Við eigum ekkert að láta bjóða okkur þetta. Þá er nú betra að deyja standandi en liggjandi á hnjánum í þeirri stöðu og auðvitað spjörum við okkur í því. Öll Norðurlöndin brugðust okkur í þessari stöðu, með dýrum lánum, með drætti á hlutum, með hótunum þar sem þeir eru undirlægjur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópubandalagsins, herranna í Evrópu sem hafa aldrei hugsað um neitt nema rassinn á sjálfum sér, aldrei neitt annað og stendur ekki annað til. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Forseti hvetur hv. ræðumann til að gæta hófs í orðavali.)

Virðulegi forseti. Ég hef lagt áherslu á það að gæta einstaklega mikils hófs í orðalagi mínu og vil ljúka máli mínu með því að segja að við Íslendingar eigum ekki að líða afskiptasemi (Forseti hringir.) nema það sé gert í ljósi þess að um jafningja sé að ræða.