Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 03. júlí 2009, kl. 12:47:24 (2602)


137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:47]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt og það hefur margoft komið fram að það eru öll tækifæri á Íslandi til að komast upp úr þessum vanda. En allar ákvarðanir sem teknar eru núna munu hafa áhrif á hvernig það er gert. Ég lýsti því í ræðu minni að mér fyndist þetta samkomulag ekki gott. Mér finnst þetta endurskoðunarákvæði veikt. Ég hefði viljað sjá að eftir sjö ár mundu menn setjast aftur niður og velta fyrir sér hver niðurstaðan er orðin þá. En við munum fara rækilega yfir það samkomulag sem liggur fyrir núna í fjárlaganefnd. En það er alveg ljóst að við getum ekki lagt neinar umframbyrðar á þessa þjóð frekar en orðið er. Ég held að það sé enginn hér sem trúir ekki á framtíð íslensku þjóðarinnar. Guð minn almáttugur, segi ég, auðvitað gerum við það. En á sama tíma verðum við að horfa raunsætt á þær skuldbindingar sem á þjóðina hafa verið lagðar og hvernig við ætlum að standa undir þeim. Ef stefnan verður sú að horfa eingöngu á skattahækkanir en ekki tekjuaukningu fyrir ríkissjóð dregur það kjarkinn úr þjóðinni. Það dregur úr möguleikum hennar og hugviti til að gera nýja hluti. Það viljum við ekki sjá. Við viljum þvert á móti sjá að strax verði skapaður sá grunnur sem þarf til að þjóðin geti aukið tekjur sínar á alla lund til að standa undir þeim skuldbindingum sem á þjóðina hafa verið lagðar. Við Íslendingar höfum alltaf verið borgunarmenn fyrir skuldum okkar. Íslenska ríkið hefur verið það í gegnum tíðina og það hefur einkennt þessa þjóð að vera stolt og vilja standa við skuldbindingar sínar. Við spyrjum allra þessara spurninga vegna þess að við viljum ekki að íslenska þjóðin verði orðin ölmusuþjóð meðal þjóða. Það viljum við ekki sjá.