Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 03. júlí 2009, kl. 13:13:31 (2608)


137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:13]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Bhr):

Frú forseti. Skrattinn er á veggnum. Það þarf ekki að mála hann á hann eða ímynda sér hann. Skrattinn er á veggnum og hann er ofinn úr vanhæfni, spillingu, siðrofi og órjúfanlegum tengslum viðskiptaheims og þingheims. Skrattinn er á veggnum og hann er óttinn við framtíðina, hann er óvissan og þrælslundin. Skrattinn er á veggnum og hann nærist á hræðsluáróðri, vanþekkingu og ósætti.

Frú forseti. Við megum ekki láta óttann stjórna okkur þegar við skoðum Icesave-samninginn og afleiðingar hans með eða móti. Við megum ekki halda að skrattinn sé neitt annað en mynd á vegg en ekki raunveruleikinn. Horfumst í augu við veruleikann, frú forseti, þessi samningur er nauðasamningur nýlenduherra við þjóð sem þeir bera litla sem enga virðingu fyrir, nauðasamningur sem allir bera jafnmikla ábyrgð á hvaða flokki sem þeir koma frá. Það hafa nefnilega allir ráðamenn fyrr eða síðar tekið þátt í að skapa þá vegferð sem við erum á núna en ég vil vekja athygli á því, frú forseti, að það skiptir engu máli. Það eina sem skiptir máli núna er eftirfarandi: Er hægt að skrifa undir þennan samning án þess að eiga það á hættu að steypa komandi kynslóðum í slíkt skuldafen að úr því verði aldrei komist, sama hve dugleg, hæfileikarík, frábær, vel menntuð og gáfuð við erum?

Það eru alveg til dæmi þess að þrælar séu ákaflega geðþekkt og vel gefið fólk. Mér er nóg boðið að hæstv. ráðherrar bjóði þjóðinni upp á hræðsluáróður sem hér hefur verið málaður á vegginn sem raunveruleiki, raunverulegur skratti á veggnum.

Það er mikilvægt að spyrja sig nokkurra spurninga, t.d.: Hvað gerist ef við skrifum ekki undir og förum í nýtt samningaferli? Ekki neitt, nákvæmlega ekki neitt nema við semjum upp á nýtt. Ég hef ekki séð neitt annað en innantómar hótanir sem ólíklegt er að efndar verði í öllum þeim gögnum og leynigögnum og aukagögnum sem ég hef lesið varðandi þetta mál. Ég sé ekki neitt sem réttlæti þann hræðsluáróður sem ríkisstjórnin og hennar leiguliðar halda fram. Ég fann ekkert sem rennir stoðum undir þá skemmtilegu kenningu að við getum orðið Kúba norðursins. Gleymum því ekki að við göngum nú þegar undir heitinu Nígería norðursins. Mannorð okkar á alþjóðavísu er ekkert sérstaklega gott. Ég held að það mundi ekki auka traust á okkur ef við skrifum upp á samning sem er deginum ljósara að við getum ekki staðið undir. Það sem flækist e.t.v. fyrir þeim ágætu embættismönnum og ráðamönnum sem kynnt hafa sér samninginn er fyrst og fremst það sem hangir á spýtunni alræmdu.

Ég hef fyrir því traustar heimildir að það sem hangi á spýtunni sé eftirfarandi: Bretar hótuðu því að ef ekki yrði skrifað undir mundi það standa í vegi fyrir aðildarumsókn okkar að ESB og ef ekki er skrifað undir mun Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sitja á öðrum hluta lánsins til okkar. Það er reyndar alveg furðulegt því að þessi skuldbinding stangast beinlínis á við 16. lið samningsins og kröfur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um hve mikið við megum skulda til að geta yfir höfuð fengið aðstoð frá þeim og til að geta yfir höfuð skrifað undir þennan samning.

Ef ég má, með leyfi forseta, ætla ég vitna í bréf sem ég las frá Gunnari Tómassyni um þessi mál:

„Erlendar skuldir Íslands eru mun hærri en upphaflega var gert ráð fyrir þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom hingað til lands í nóvember síðastliðnum.“

Franek Rozwadowski, sendifulltrúi sjóðsins hér á landi, staðfesti það í fréttum Stöðvar 2.

„Samkvæmt útreikningum fréttastofu eru erlendar skuldir Íslands nú um 250% af landsframleiðslu, en þetta hlutfall er það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn horfir hvað mest til. Þess ber að geta að útreikningarnir eru byggðir á tölum um erlendar skuldir frá því í lok mars á þessu ári. Staðan hefur ekki verið birt opinberlega, hvorki af stjórnvöldum né Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.“

Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að birta þessi gögn. Ég skora jafnframt á hæstv. ríkisstjórn að fá óháðan aðila, ekki Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ekki Seðlabanka Íslands, til að taka saman nákvæmlega hver skuldastaða þjóðarinnar er og birta þjóðinni. Þetta var útúrdúr hjá mér. Nú hefst tilvitnun aftur:

„Aðgerðaáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því í október 2008 var samin á grundvelli mikillar óvissu um lykilstærðir, þar á meðal erlendrar skuldastöðu þjóðarbúsins á komandi tíð. Í greinargerð starfsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um lánaumsókn Íslands sl. nóvember segir m.a. um horfur varðandi skuldastöðu þjóðarbúsins á komandi tíð: Gert er ráð fyrir því að hlutfall erlendra skulda verði um 160% af vergri landsframleiðslu árið 2009 […]. Á meðan gert er ráð fyrir að þetta hlutfall lækki töluvert mikið í spám okkar mun það samt sem áður vera áfram afar hátt eða um 101% af vergri landsframleiðslu fram til ársins 2013.“

Þá má gera ráð fyrir því að þeir hafi ekki verið búnir að reikna inn í Icesave-skuldbindingarnar.

„Hlutfall erlendra skulda mun halda áfram að vera afar viðkvæmt fyrir áföllum sér í lagi út af gengisþróun.“

Og Gunnar heldur áfram:

„Aðgerðaáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins byggði á því að hlutfall erlendra skulda þjóðarbúsins væri um 160% af landsframleiðslu við árslok 2009. […] Eins var það mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að hlutfall af stærðargráðunni 240% „væri augljóslega óviðráðanlegt“.

Í Icesave-samningum stjórnvalda við Breta og Hollendinga er sérstaklega vísað til umsóknar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sl. nóvember um skuldastöðu þjóðarbúsins næstu árin og kveðið á um frekari viðræður ef hún reynist lakari en ráð var fyrir gert.

Staðfesting Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á því að skuldastaðan sé af ofangreindri stærðargráðu mundi gera frekari viðræður við Breta og Hollendinga nauðsynlegar nú þegar þar sem forsendur fyrirliggjandi Icesave-samnings eiga ekki við lengur.“

Það er alveg sjálfgefið að við verðum að endursemja við Breta og Hollendinga og hæstv. fjármálaráðherra ætti að hlusta á þetta. (Gripið fram í.) Það er sjálfgefið, það er búið að klippa hæstv. forsætisráðherra úr snörunni. Við verðum að semja upp á nýtt því að það eru ákvæði um það í samningnum sjálfum að ef skuldastaða okkar er svo mikil samkvæmt því sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur stöndum við ekki undir þessu. Það verður að semja upp á nýtt út frá þeirra eigin skilmálum.

Frú forseti. Nú er ekki tími fyrir skotgrafarhernað. Borgarahreyfingin heitir því að gera ekki atlögu að stjórninni þó að Icesave-samningurinn verði felldur. Það á að vera réttur sérhvers þingmanns að fá að kjósa eftir sinni bestu vitund varðandi svona stórmál. Ég skora því á fjármálaráðherra og formann Vinstri grænna að hætta því glapræði og því andlega ofbeldi að setja sjálfan sig og stjórnina að veði til að þvinga þennan samning í gegnum þingið með góðu eða illu. Ég þoli ekki lengur að hlusta á þetta pex. Er það virkilega svo, frú forseti, að hér sé virkilega svo illa komið fyrir okkur þingmönnum á svo sögulegum tímum að flokkshollusta vegi þyngra en hollusta gagnvart hagsmunum þjóðarinnar? (Gripið fram í.)

Þann 7. febrúar hlustaði ég á frábæran fyrirlestur sem Gunnar Tómasson flutti í Reykjavíkurakademíunni um kollsteypu íslenska hagkerfisins. Þar lýsti hann m.a. þeirri skoðun sinni að fram undan væri greiðsluþrot þjóðarbúsins. Í þessu sambandi spurði einn áheyrenda lykilspurningar: Ef greiðsluþrot verður ekki umflúið er betra að horfast í augu við vandann strax eða eftir nokkur ár? Og svar Gunnars var: Strax.

Ég skal taka það fram að Gunnar starfaði um langa hríð fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og er heimsþekktur og virtur hagfræðingur sem hefði að mínu mati átt að sitja í þessari samninganefnd. Hæstv. ríkisstjórn. Er ekki kominn tími til að athuga hvað núllleiðin þýðir fyrir okkur? Það er beinlínis vítavert gáleysi að athuga ekki opinberlega hvort sú leið sé ekki skynsamlegasta leiðin til að fara núna áður en það verður of seint því að auðlindir okkar eru að veði. Landsvirkjun, krúnudjásn þjóðarinnar, gæti auðveldlega fallið í hendurnar á erlendum stórfyrirtækjum. Það er afar skuldsett og stendur enn verr núna út af sívaxandi skuldsetningu þjóðarinnar út af erlendum skuldum og núna er lánshæfni þess komin í „junk bond.“ Ætli það verði ekki þannig hjá okkur næst? Þjóðin á ekki neitt eftir til að borga. Hún á ekkert eftir nema að auka skuldir sínar. Er það virkilega eina lausnin sem þessi stjórn hefur í boði, að skuldsetja þjóðina enn frekar? Það er einfaldlega engin skömm að því að horfast í augu við vandamálið, við vanmáttinn, til að leysa þetta vandamál áður en það verður of seint. Þetta er spurning um nokkur erfið ár eða erfið ár um aldir alda.

Að lokum vil ég lýsa þeirri einlægu skoðun minni að samninganefndin var hreinlega vanhæf vegna þess að í henni var ekki nokkur maður til þess fær að semja samkvæmt ævafornum samningsaðferðum Breta og Hollendinga (Gripið fram í.) sem eru sérfræðingar í að semja við þriðjaheimslönd um afarkosti. Í þessari nefnd átti að skipa faglega en ekki pólitískt.

Þá vil ég lýsa því yfir að hæstv. umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, er algerlega vanhæf til að fjalla um þetta mál eða greiða því atkvæði því að faðir hennar, Svavar Gestsson, var skipaður formaður samninganefndarinnar. Ég skora því á hæstv. ráðherra að sitja hjá í komandi atkvæðagreiðslu.