Endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja

Fimmtudaginn 09. júlí 2009, kl. 22:40:10 (2810)


137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[22:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir efnismikla og góða umræðu hér fram eftir kvöldinu um þetta mál. Hún hefur auðvitað snúist að verulegu leyti um tvö önnur þingmál, sparisjóðamálið og Bankasýsluna. Ég þakka fyrir hlý orð í garð nefndarinnar fyrir að hafa unnið vel í þessu máli og ég hygg að flestum spurningum hafi verið svarað sem fram komu við umræðuna. Eftir stendur auðvitað það álitamál sem hér var við 2. umr. sem er skipan stjórnarinnar. Ég vek athygli á því að með þeirri breytingartillögu sem meiri hlutinn leggur nú til er gert ráð fyrir því að sú skipan geti færst á hendur Bankasýslunnar sem er enn til umfjöllunar og það er í samræmi við upphaflegar tillögur í málinu. Þar með væri mætt sjónarmiðum Seðlabankans og hinna erlendu sérfræðinga um að það sé mikilvægt að það sé milliaðili á milli hins pólitíska valds, þ.e. eignarhaldsfélag sem færi með eignarhaldið í þessari eignaumsýslu og þeim sjónarmiðum faglegu um armslengd þá mætt.

Til að sátt geti náðst um það væri auðvitað ákaflega mikilvægt ef í meðförum þingsins gæti tekist góð samstaða um skipan stjórnar Bankasýslunnar sem ræður þá í raun og veru miklu um skipan þeirrar stjórnar. Takist það, og ég vil leyfa mér að binda vonir við það enda málið enn þá til umfjöllunar, fæ ég ekki betur séð en að samstaða sé um öll aðalatriði þess máls sem við fjöllum um hér. Það fjallar um endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja og það er auðvitað mál númer eitt á þessu þingi og sannarlega brýnasta verkefnið okkar hér í samfélaginu á næstu mánuðum að hjálpa fólkinu úti í mörkinni og atvinnufyrirtækjunum í landinu sem eiga að bera verðmætasköpunina hér á næstu árum við að rétta úr kútnum og endurskipuleggja sig þannig að fólkið í landinu og félög þeirra geti sótt fram til nýrra sigra í þágu þjóðarinnar.