Endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja

Föstudaginn 10. júlí 2009, kl. 11:28:48 (2849)


137. löggjafarþing — 37. fundur,  10. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[11:28]
Horfa

Þór Saari (Bhr):

Frú forseti. Þetta er mikilvægt mál. Þetta er það fyrsta mál sem ég hef fjallað um sem nýr þingmaður í þingnefnd og starf nefndarinnar var til mikillar fyrirmyndar og framganga formanns nefndarinnar var til fyrirmyndar í alla staði. Það var ánægjulegt að vinna að þessu máli. Það var ánægjulegt að sjá samvinnu nefndarinnar við hæstv. fjármálaráðherra og fjármálaráðuneytið því að frumvarpið tók miklum breytingum í meðförum nefndarinnar og samvinnan við framkvæmdarvaldið var alveg hreint með ágætum. Ég hafði uppi efasemdir um skipan stjórnar þessa félags vegna þess að þar er fjármálaráðherra falið mjög mikið vald. Við í meiri hlutanum treystum því að hann fari vel með það vald en með hliðsjón af fram komnu frumvarpi um Bankasýslu ríkisins og breytingartillöguna í þessu frumvarpi þá vil ég brýna fyrir þingi að fylgjast vel með því með hvaða hætti starfsemi þessara nýju félaga eða stofnana verði til að það sé tryggt að þeim verði stýrt á faglegum forsendum en ekki pólitískum eða byggðalegum forsendum.