Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 10. júlí 2009, kl. 15:29:02 (2925)


137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:29]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér er verið að reyna að grafa upp afstöðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar út frá því sem hann hefur sagt. Hæstv. utanríkisráðherra vitnaði í Fréttablaðið 14. mars. Síðan er önnur tilvitnun sem ég er með hér sem er í Fréttablaðinu 19. mars. Þar segist Sigmundur Davíð sjá fyrir sér að það yrði verkefni nýrrar ríkisstjórnar að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Hér er því verið að reyna að átta sig á því hver sú leið sem hv. þingmaður kallar framsóknarleiðina í ræðu sinni er í raun og veru. Er hún tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla eða e.t.v. þreföld atkvæðagreiðsla um hvort eigi að fara í tvöfalda atkvæðagreiðslu? Hv. þingmaður spyr líka: Hvers vegna ætti fólk að fylgja Samfylkingunni sem er svona einhuga um þetta mál? En af hverju ætti þjóðin að fylgja hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni þegar hans eigin þingmenn gera það ekki?