Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 10. júlí 2009, kl. 17:20:49 (2966)


137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst alltaf svolítið skrýtið þegar þingmenn Samfylkingarinnar koma hingað upp og segja: „Það var kosið bara um ESB í þessum kosningum. Það var kosið um það að sækja um aðild að ESB.“ Ég kannast ekki við það. Ég efast um að hæstv. fjármálaráðherra kannist við að það hafi sérstaklega verið kosið um þetta mál. (VigH: Hann var á móti ESB.) Hann var á sínum tíma — og ég held að hann sé það enn þá — á móti Evrópusambandinu. En síðan eins og gengur og gerist í stjórnarmyndunarviðræðum þá fara menn í ákveðnar málamiðlanir.

Ég segi enn og aftur að mér finnst þetta vera spurning um vinnubrögð. Að heyra það aftur og sjá hvernig samstarfsflokkur Samfylkingarinnar — sem ég á reyndar ekki að bera neina umhyggju fyrir — en að sjá hvernig samstarfsflokkur Samfylkingarinnar engist hér vegna yfirgangs Samfylkingarinnar þegar menn vita að breið pólitísk samstaða mundi nást um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Af hverju fóru menn þá ekki strax í maí og spöruðu tímann í þá vegferð? Það hefði enginn getað sagt neitt af því að málið er upphaflega í höndum þjóðarinnar og hún mun síðan vonandi fá líka lokaorðið