Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 10. júlí 2009, kl. 18:30:40 (2997)


137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að það er mjög mikilvægt að menn geri sér grein fyrir hvað þeir vilja. Meiningarmunurinn er alveg kýrskýr. Hann er alveg ljós. Ég trúi því ekki og get bara ekki treyst því að meðan skilyrðin til dæmis fyrir sjávarútvegi og landbúnaðinn, sem ég held að sé mjög einfalt að setja og koma fram í okkar flokksþingsályktun, þ.e. að þegar slík skilyrði eru ekki í tillögunni sjálfri og eru ekki niðurnjörvuð þannig að það komi skýrt fram að þessu séum við ekki til í að fórna þá gengur dæmið ekki upp. Þá erum við að fara of bratt. Menn hafa sagt að það sé fáránlegt að setja svona skilyrði þegar farið er í svona samninga. Ég er algerlega ósammála því. Ég tel mjög eðlilegt, ekki síst í svona veigamiklum samningum, að við ákveðum — þetta er ekkert mjög flókið — ákveðum hreint út, höfum það svart á hvítu hverju við viljum ekki fórna.