Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 10. júlí 2009, kl. 18:46:21 (3012)


137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er sérkennilegt að þurfa að slíta út hér um bil með töngum upplýsingar um það hvernig fundarstörfum þingsins eigi að vera háttað á næstu klukkustundunum. Þetta mál er þannig vaxið að ekkert knýr á um það, mér vitanlega að minnsta kosti, að umræðu um það ljúki í dag eða á morgun. Þess vegna væri út af fyrir sig mjög auðvelt að fresta fundinum einhvern tíma í kvöld og halda síðan áfram á mánudaginn. Þetta segi ég líka vegna þess að ég er fulltrúi í nefnd sem starfar á vegum forseta þingsins til að gera starfið á Alþingi fjölskylduvænna. Þetta er auðvitað ekki mjög gott innlegg í þá umræðu, meðal annars vegna þess að ef fólk á að skipuleggja og eiga gott fjölskyldulíf þá þarf það að hafa einhverja hugmynd um það hvernig vinnunni muni vera háttað. Það er enginn að telja það eftir sér að vinna langan vinnudag og leggja á sig mikla vinnu. Það er sjálfsagður hlutu. Hins vegar er það sjálfsögð krafa starfsfólks og alþingismanna að það liggi nokkurn veginn fyrir hvernig eigi að hátta (Forseti hringir.) störfum þingsins. Annað er að mínu mati virðingarleysi við þingið og (Forseti hringir.) virðingarleysi við alþingismenn.