Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 10. júlí 2009, kl. 18:53:24 (3018)


137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:53]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér sýnist að formaður þingflokks Samfylkingarinnar sé búinn að leysa þetta mál. Hann hefur greint frá því að ekkert liggi á að ræða þetta, að við getum rætt þetta næstu dagana, í næstu viku og þá er eðlilegast auðvitað að hverfa frá þeirri undarlegu hugmynd að halda fund á morgun.

Svo vil ég setja þetta mál í samhengi. Hér greindi hv. formaður þingflokks Samfylkingarinnar frá því að klukkan fjögur í dag, þegar vinnudegi venjulegs fólks á föstudegi er lokið, hefði verið ákveðið að halda fundinn á morgun. Nú vil ég enn rifja það upp að ég sit í nefnd á vegum hæstv. forseta og þessi hæstv. forseti gerði það að sérstakri stefnu sinni þegar hún tók við sem forseti núna í vor, greindi frá því í ræðu sinni að hún vildi leggja sig fram um að Alþingi gæti orðið fjölskylduvænn vinnustaður. Svona vinnubrögð eru ekki fjölskylduvæn á nokkurn hátt. Þetta mál gerir allt starf okkar í þessari nefnd bókstaflega hlægilegt þegar vinnubrögðin eru með þessum hætti (Forseti hringir.) og að það skuli vera þessi (Forseti hringir.) forseti sem lýsir því yfir að hann vilji hafa hér fjölskylduvænan vinnustað, (Forseti hringir.) setur nefnd um málið og treður síðan á þessu eina baráttumáli sem hún lagði upp (Forseti hringir.) með í ræðu sinni í vor. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)