Uppgjör vegna gömlu bankanna

Mánudaginn 13. júlí 2009, kl. 15:15:45 (3140)


137. löggjafarþing — 40. fundur,  13. júlí 2009.

uppgjör vegna gömlu bankanna.

[15:15]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Það er vitaskuld rétt hjá hv. þm. Lilju Mósesdóttur að föstudagurinn nk., 17. júlí, verður að öllum líkindum talsverður merkisdagur í sögu íslenska bankakerfisins vegna þess að þá verður stórt skref stigið til þess að gera upp og skilja á milli gömlu og nýju bankanna. Það er jafnframt rétt hjá henni að það er í grundvallaratriðum gert eins og að var stefnt sl. haust, nýju bankarnir taka til sín íslenskar eignir, bæði góðar og slæmar, en í gömlu bönkunum verða fyrst og fremst eftir erlendar eignir. Þær forsendur eru því allar réttar, ég tek undir það.

Hins vegar vil ég ekki gangast við því að samninganefnd ríkisins — sem reyndar er ekki bara á forræði viðskiptaráðuneytisins, en látum það liggja á milli hluta — hafi gefist upp á að skila einum eða fleiri af nýju bönkunum til hinna gömlu. Það er enn á borðinu að kröfuhafar gömlu bankanna eða jafnvel gömlu bankarnir sjálfir eignist hlut, jafnvel 100%, í nýju bönkunum en það er ekki frágengið. Það er einfaldlega eitt af því sem enn er á borðinu og verður væntanlega ekki frágengið núna á föstudaginn en ég á ekki von á öðru en að sá möguleiki verði áfram inni í myndinni og að það verði jafnvel niðurstaðan varðandi einn eða fleiri banka.

Það er jafnframt rétt að rætt hefur verið um að 280 milljarðar verði eiginfjárframlag nýju bankanna frá hinu opinbera. Sú upphæð á ekki að ganga beint á móti afskriftum vegna lána sem ekki verða greidd að fullu, þær afskriftir eiga að eiga sér stað þegar eignirnar eru færðar frá gömlu bönkunum (Forseti hringir.) til hinna nýju eða gert er ráð fyrir þeim við það mat.