Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Þriðjudaginn 14. júlí 2009, kl. 15:49:41 (3244)


137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var mjög athyglisvert að heyra þetta síðasta vegna þess að mjög margir óttast að farið verði í aðildarviðræður, óttast það vegna þess að þó að kosið yrði um það eftir á er það þekkt að Evrópusambandið hefur mjög sterk ítök bæði í gegnum styrki og annað. Fjöldi manna á Íslandi er á launum hjá Evrópusambandinu og það hefur mjög sterk ítök í fjölmiðlum líka og getur hugsanlega verið skoðanamyndandi á Íslandi. Ég hugsa því að einhverjir muni vilja jafnvel kæra hæstv. utanríkisráðherra þegar hann leggur inn umsóknina. Ég held að þessar upplýsingar séu mjög mikilvægar fyrir það fólk sem er að berjast fyrir því að halda Íslandi í eigu Íslendinga og að Íslendingar hafi sjálfir með sín mál að segja en ekki einhverjir menn suður í Brussel.

Ég er staðfastlega í þeirri trú, og gef ekki eins mikið fyrir auðlindir og margir aðrir, ég er á þeirri skoðun að það að geta haft um sín eigin mál að segja hafi miklu meira að segja en allar auðlindir og allt slíkt. Maður þarf ekki nema líta á þróun Nýfundnalands eftir að þeir voru teknir yfir af fjarlægu valdi til að sjá hvers lags doði og deyfð og mannflótti hefst um leið. Ég óttast það hreinlega að nokkrum árum eftir að Ísland er gengið Evrópusambandinu á hönd, þrátt fyrir styrki og allt slíkt, muni hér koma yfir doði og deyfð og það verði hægt og rólega þannig að enginn taki eftir ákveðnum landflótta og landauðn.