Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Miðvikudaginn 15. júlí 2009, kl. 18:46:42 (3489)


137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:46]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir andsvarið. Hann einfaldlega misskildi orðalag mitt eða kannski var ég ekki nógu skýr. Ég er þess fullviss að við getum kennt Evrópusambandinu margt og sérstaklega varðandi sjávarútveginn. Ég sagði hins vegar að við komum ekki til með að ráða því hvernig sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins komi til með að líta út og það verður ekki þannig að Íslendingar einir þjóða innan eða utan Evrópusambandsins komi til með að stjórna sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, hvorki í náinni framtíð né eftir 50 ár eða eftir 100 ár, eins og hv. þm. Pétri H. Blöndal er svo tamt að tala um Evrópusambandið.

Það er rétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að sjávarútvegsstefna okkar er til fyrirmyndar alls staðar í heiminum. Fólk lítur hingað eftir fyrirmynd. Það er einfaldlega vegna þess að þetta er okkar grundvallaratvinnugrein. Við lifum og hrærumst í þessu alla daga og það er þess vegna sem við höfum þurft að þróa það kerfi sem hér er til þess að halda vel utan um auðlindina okkar. Þess vegna, eins og ég lýsti hér áðan, hef ég áhyggjur af því að eyða tíma í að ræða hér um Evrópusambandið og ég hef jafnframt áhyggjur af þeirri umræðu sem sett var af stað hér í kjölfar kosninga um fyrningarleiðina sem ríkisstjórnarflokkarnir eru að vinna að. Það hefur valdið miklum óróa í sjávarútveginum, miklum óróa í greininni og það er einfaldlega ekki það sem við þurfum á að halda núna, að rugga þeim bát eða þeirri kjölfestu sem í bátnum okkar er. Á því þarf ekki íslensk þjóð að halda í dag. Við þurfum að halda vel á spilunum. Við höfum fullt af trompum á hendi. Við þurfum bara að vita hver þau eru, sjá þau sjálf, horfa á trompin okkar, standa með okkur sjálfum og byggja á þeim stóra og góða grunni sem við eigum hér í þessu landi. Ég hef trú á að við getum það. Ég veit að hv. þm. Pétur H. Blöndal veit að við getum það. Spurningin er bara að við stöndum með okkur sjálfum og vinnum á þessum trausta grunni sem við þó höfum hér í þessu landi.