Kjararáð o.fl.

Fimmtudaginn 23. júlí 2009, kl. 20:01:08 (3756)


137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[20:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða mál sem snýr að kjararáði og gengur í örstuttu máli út á það að ákveðin störf hjá hinu opinbera, nánar tiltekið stjórnunarstörf, eru lækkuð niður í sömu laun og laun forsætisráðherra. Það hefur verið nokkur umræða um þetta og ég ætla ekki að halda langa ræðu og endurtaka það sem áður er komið fram en í örstuttu máli ber þetta mál þess merki að hér séu menn fyrst og fremst í því að reyna að afla sér pólitískra vinsælda í stað þess að taka heildstætt á málum.

Við vitum það öll, virðulegi forseti, að verkefni okkar sem erum á þinginu, löggjafarsamkundunnar, er að búa þannig um hnútana að okkur gangi sem best að komast í gegnum þær efnahagsþrengingar sem við stöndum frammi fyrir og reyna að vinna okkur eins hratt út úr þeim og mögulegt er. Eitt af því, virðulegi forseti, er að sníða sér stakk eftir vexti. Það er alveg ljóst að við þurfum að spara þegar kemur að opinberum rekstri. Um það er ekki deilt. Það er algerlega ljóst að við munum þurfa að taka á því sem snýr að launum, kaupi og kjörum hjá opinberum starfsmönnum. Það er auðvitað ekki einfalt verk eða til vinsælda fallið. Það er hins vegar ekkert sem bendir til þess að fara eigi í aðgerð eins og þessa og taka út nokkra forstöðumenn á vegum hins opinbera og setja þá niður á sömu laun og forsætisráðherra. Það er ekkert sem bendir til þess að það sé góð leið í þeirri vegferð.

Nú er það ekki svo, virðulegi forseti, að þessir aðilar séu heilagir og ekki megi lækka laun þeirra. Það er sjálfsagt og eðlilegt en ef menn ætla að gera þetta af einhverri skynsemi þá verða menn að setja þetta í samhengi. Hugmyndin var sú að kjararáð kæmi með almennar leikreglur ef þannig má að orði komast og legði einhverja línu í launauppbyggingu hins opinbera. Þannig var lagt af stað með í þá vegferð. Hugsunin er sú að launakerfið hjá hinu opinbera sé þannig að það taki mið af ábyrgð þeirra einstaklinga sem þar starfa og taki tillit til þess hvað viðkomandi aðilar gera og er í mörg horn að líta hvað það varðar. Við sjáum að við erum í samkeppni og það hefur verið rætt lítillega á undanförnum árum að á þessu góðæristímabili hafi laun ýmissa aðila, og vísað sérstaklega í opinberu hlutafélögin, að laun forstöðumanna þar hafi hækkað mjög. Því var kennt um að það hafi verið samkeppni um þessa aðila, hæfa stjórnendur, við einkamarkaðinn. Það er einn þátturinn. En það bara er einn af þeim þáttum sem hér er tekið tillit til. Hér er tekið til miklu fleiri þátta en bara opinberu hlutafélögin. Það er alveg rétt, virðulegi forseti, að það virðist ekki vera mikið samhengi á milli stjórnarstarfa hjá hinu opinbera og launa. Ég minntist á það áðan í andsvari að ég tel t.d. að það starf sem sé einna erfiðast í íslensku þjóðfélagi sé forstjórastaða í Landspítalanum. Það að stýra slíkri stofnun krefst mikillar hæfni og þar erum við núna og verðum vonandi alltaf í samkeppni um fólk því að hæfir stjórnendur eru vinsælir um allan heim. Það er þannig að Íslendingar stýra spítölum annars staðar í heiminum með mjög góðum árangri. T.d. stýrir Íslendingur stærsta spítala á Norðurlöndunum, Karolinska spítalanum, og gerir það með mikilli prýði. Það væri kannski fróðlegt að heyra hvernig það kom allt saman til en stundum er það þannig að enginn er spámaður í sínu föðurlandi og við höfum misst ágætisfólk til útlanda sem hefur ekki skilað sér til baka, m.a. vegna þess að það hefur ekki fengið tækifæri hér á landi.

Af hverju nefni ég þetta? Við erum í samkeppni t.d. í heilbrigðisgeiranum um sérfræðinga og í rauninni flestar heilbrigðisstéttir. Af rúmlega 30 heilbrigðisstéttum erum við í samkeppni í það minnsta við Norðurlöndin og mörg fleiri ríki um allt þetta fólk. Ef við ætlum að ná árangri, virðulegi forseti, í því að halda uppi þjónustustigi á þessum sviðum og öðrum með minni fjárhæðum þá er það alveg klippt og skorið, alveg kristaltært að þá verða menn að vera með einhver þau kjör sem eru sambærileg við það sem gerist annars staðar.

Ég fer ekki í neinar grafgötur með það að mér finnst að þegar kemur að þessu frumvarpi sé tekið á einum einstaklingi í heilbrigðisgeiranum. Ég vek aftur athygli á því að þetta er stærsti einstaki útgjaldaliður hins opinbera, 25% af ríkisútgjöldunum fara í heilbrigðismálin og þar er tekið á einum einstaklingi, einum. Sá einstaklingur eins og aðrir stjórnendur er í rauninni má segja í þeirri stöðu að geta gengið í störf annars staðar en hér á Íslandi og kom reyndar frá Noregi. Þegar þessi lög verða samþykkt verður hann með einn þriðja af þeim launum sem hann var með í sambærilegri stöðu í Noregi. Ég skoðaði þetta alveg sérstaklega því ég þekki þarna nokkuð til. Hann var á sambærilegum kjörum þegar hann kom til Íslands en eftir þessa breytingu var hann með einn þriðja ef við reiknum þetta í norskum krónum. Það eru um það bil 160 manns á Landspítalanum með hærri laun en forsætisráðherra núna og verða þá 160 manns með hærri laun en forstjórinn.

Þetta einstaka dæmi — og ég tek það sérstaklega af því að ég þekki mjög vel til — segir okkur að ekki er mikil hugsun í þessu máli. Það dugar ekki sem rök, virðulegi forseti, að segja að einhvers staðar verði að byrja. Þetta er þannig mál að menn komast ekki hjá því að fara í þetta verkefni og ef sumarþingið hefði verið nýtt eins og það hefði átt að vera þá hefðu menn verið undirbúnir með heildstæðari hugmynd um það hvernig við vildum nálgast þessa hluti. Við viljum halda uppi þjónustustigi. Til þess þurfum við hæft fólk. Við erum í samkeppni um þetta fólk og einn þáttur sem verður að vera í lagi snýr að stjórnendum. Við erum búnir að byggja allt okkar þjóðfélag og vonandi hættum við því aldrei, allt okkar þjóðfélag, menntakerfi og allt saman þannig upp að unga fólkið okkur verði samkeppnishæft um allan heim. Þannig erum við búin að byggja þetta upp. Við kennum Íslendingum tungumál á unga aldri. Við erum í mjög miklum samskiptum við aðrar þjóðir og allt er þetta gert til þess að fólk geti starfað annars staðar, stundað nám annars staðar og komið heim aftur með þekkingu sem það næði í annars staðar þannig að við getum haft besta þjóðfélag í heimi.

Það er verkefnið, virðulegi forseti, og við megum ekki gleyma okkur í því að vera í einhverjum vinsældakosningum sífellt. Þetta frumvarp er alveg skólabókardæmi um vinsældakosningar. Ég hef tekið eftir því að ákveðnir þingmenn stjórnarliðsins eru búnir að kría út fréttatíma eftir fréttatíma til að toga þetta mál og reikna út hvað margir aðilar séu á þessum launum hjá hinu opinbera og hvað þetta lækkar mikið. Þetta ber öll einkenni þess að hér er fyrst og fremst um að ræða að verið sé ná sér í vinsældastig í stjórnmálum. En skaðinn getur orðið mikill, virðulegi forseti. Ef við missum fólk á þessum sviðum hvort sem það er í menntageiranum, heilbrigðissviðinu eða annars staðar úr þeim stofnunum sem nú eiga að fara að taka mjög erfiðar ákvarðanir til að hjálpa okkur út úr þessum vanda, ef við göngum of langt í því að skerða kjörin, ef við byggjum upp kerfi þar sem er enginn hvati fyrir þá sem eru núna t.d. á góðum launum, segjum í heilbrigðiskerfinu að fara í stjórnarstöður þá erum við að skaða verulega það uppbyggingarstarf sem við erum í og ætlum að fara í. Þannig er það, virðulegi forseti, og ég hvet meiri hlutann til að hugsa þetta mál því það er enginn vafi í mínum huga og ég held að öllum sé það ljóst sem þetta mál skoða að þetta frumvarp verður ekki til að hjálpa til, enda erum við ekki, virðulegi forseti, að tala um neinar upphæðir. Það hefur verið upplýst að sparnaðurinn í A-hluta ríkissjóðs er 12 milljónir. Menn ætla að setja á hér eina stofnun, Bankasýslu ríkisins sem ætti að heita Landsbankasýsla ríkisins sökum þess að hún er bara með einn banka núna en ekki þrjá og eignaumsýslufyrirtæki. Hún á að kosta 80 millj. Þar fór sá sparnaður ef sparnað mætti kalla.

Mats Josefsson, sérfræðingurinn á því sviði, kom og sagði að setja ætti upp bankasýslu. Hann kom á fund viðskiptanefndar og sagði að aðalatriðið væri að ekkert hefði gerst í bankamálum í níu mánuði og það þyrfti eitthvað að gera. Hann sagði að það væri stór galli við þetta frumvarp að gert væri ráð fyrir því að enginn væri á hærri launum en forsætisráðherra. Mats Josefsson taldi nauðsynlegt að fá erlenda sérfræðinga til að koma að þessum málum og hann sagði: Þið fáið enga erlenda sérfræðinga á þessum launum. Það þýðir að þið verðið, eins og hann orðaði það, 2. til 3. stigs sérfræðingar og það mun vera mjög hættulegt fyrir ykkur, sagði hann. Þetta upplýsti Mats Josefsson í þingnefndinni.

Ég er ekkert að fara út í upphæðir eins og 2.000 millj. sem við eigum að greiða í lögfræðikostnað, 10 millj. punda sem við erum að greiða í lögfræðikostnað bara til Breta. Ég man ekki hver talan var í evrum, voru það ekki 7 millj. evra fyrir Hollendinga?

Virðulegur forseti. Þetta mál ber öll einkenni þess að hér séu menn að reyna að slá einhverjar keilur í vinsældakosningum en ekki sé verið taka á málum af ábyrgð. Hér hefur verið nefnt að þetta sé táknrænt. En svo því sé til haga haldið þá var það eitt af fyrstu verkum síðustu ríkisstjórnar eða ríkisstjórnar undir forustu Sjálfstæðisflokksins þegar kreppan kom að lækka laun allra sem voru hæst launaðir hjá hinu opinbera, algerlega yfir línuna. Það átti við þessa forstöðumenn jafnt sem aðra, ráðherra og þingmenn. Ég beitti mér sjálfur fyrir því að Sjúkratryggingastofnun mundi sérstaklega skerða kjör sérfræðinga þannig að menn hafa gengið í þau verk. Nema hvað. Stendur ekkert annað til og menn hafa reynt að gera það með einhverri samfellu og ekki þannig að við séum að koma okkur í snúna stöðu.

Og af því að menn tala um táknræna hluti, þá verð ég að viðurkenna, virðulegi forseti, að það er kannski táknrænt en ekki mjög jákvætt að úr því að við höfum litið svo mikið til Noregs, okkar gömlu vinaþjóðar að við fengið norskan karlmann í Seðlabankann. Við borguðum honum um það bil 2 millj. á mánuði ef hlunnindin eru tekin til en við fengum íslenskan hjúkrunarfræðing frá Noregi til að gegna að ég tel erfiðustu stjórnunarstöðu á Íslandi, okkar stærstu umönnunarstofnun, sem er Landspítalinn, og þar göngum við fram í að lækka þau laun eins og ég nefndi áðan. Einhvern tíma hefði verið kallað að menn væru að mismuna milli kynja. Ég ætla ekki að fara í það, ég ætla mönnum ekki neitt slíkt.

Hér hv. þm. Helgi Hjörvar sem hefur oft tekið það upp hjá sjálfum sér að breyta rétt. Hann er í þeirri stöðu að vera formaður þeirrar nefndar sem um þetta mál fjallar. Ég veit það, því ég hlustaði á hv. þingmann áðan, að hann hefur skilning á þessum sjónarmiðum og skilur þetta mál. Ég vil hvetja hv. þm. Helga Hjörvar að tala um fyrir meiri hlutanum og að við hugsuðum og færum betur yfir þetta mál svo ekki sé hægt að misnota það. Það vita allir að það verður að spara og allir eru sammála því að þeir sem hafa meira finni meira fyrir sparnaðinum, þeir sem hafa hærri launin verði fyrir meiri sparnaði og við viljum vernda þá sem lægst hafa launin. Það er markmið, svo því sé algerlega til haga haldið, og ég ætla ekki hv. þingmanni sem ég vildi gjarnan að færi í andsvar við mig, ég ætla honum ekki að fara að snúa út úr. En ég vil bara hvetja hann, virðulegi forseti, hv. þm. Helga Hjörvar með mestu vinsemd að beita sér fyrir því að menn taki einn hring í þessu máli í viðbót. Ég veit að það verður samstaða milli stjórnaraðila og stjórnarandstöðu um að setjast yfir þetta mál og ná þeim markmiðum sem við erum sammála um en með því að gera þetta svona erum við ekki að stíga spor sem mun hjálpa okkur í þeirri vegferð sem við erum í. Við erum sammála um að við verðum að standa saman til að ná árangri.