Framhaldsskólar

Fimmtudaginn 23. júlí 2009, kl. 20:57:54 (3765)


137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

framhaldsskólar.

156. mál
[20:57]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla.

Í frumvarpinu er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, sem gerir ráð fyrir því að fram til vors 2012 verði framhaldsskólum heimilt að halda áfram að innheimta af nemendum sem njóta verklegrar kennslu efnisgjald fyrir það efni sem skólinn lætur þeim í té og þeir þurfa að nota í námi sínu. Þetta frumvarp snýst í stuttu máli um að ákvæði 2. mgr. 7. gr. eldri laga um framhaldsskóla um innheimtu og fjárhæð efnisgjalda gildi óbreytt næstu þrjú skólaár. Samkvæmt því er miðað við að hámark gjaldsins verði 50 þús. kr. á skólaári eða 25 þús. kr. á önn.

Ákvæði gildandi laga um framhaldsskóla tóku gildi 1. ágúst 2008. Á því tímamarki var innritun fyrir skólaárið 2008–2009 almennt lokið og efnisgjöld voru þá ákveðin samkvæmt eldri lögum. Fyrirmæli b-liðar 1. mgr. 45 gr. laganna sem koma til framkvæmda á komandi skólaári veita heimild til innheimtu efnisgjalds er miðast við efni sem skóli lætur nemanda í té og hann hefur sérstök not af. Hér er um mun takmarkaðri heimild að ræða til innheimtu efnisgjalda en samkvæmt eldri lögum. Sé miðað við innheimtu efnisgjalda verknámsskóla á árinu 2008 má búast við að fjárframlög til framhaldsskóla eða tekjur þeirra af þessum gjöldum dragist saman um 200 millj. kr. en gert hafði verið ráð fyrir að þessari breytingu yrði mætt með hækkun framlaga úr ríkissjóði.

Ástæða þess að þetta frumvarp liggur hér fyrir er auðvitað ekki gleðileg en það er staða ríkisfjármála um þessar mundir. Í þeim niðurskurðartillögum sem nú liggja fyrir á málefnasviði menntamálaráðuneytis hefur verið leitast við að skerða sem minnst þjónustu framhaldsskólans. Eigi að síður hefur verið gert ráð fyrir um 5,5% niðurskurði sem þýðir um 850 millj. kr. lækkun á framlögum til reksturs framhaldsskóla.

Í þessum tillögum, sem auðvitað verða hér til umræðu síðar, hefur verið leitast við að standa sem mest vörð um kjarnaþjónustu og skera fremur af viðbótarþjónustu. Hins vegar mundi 200 millj. kr. kostnaður til viðbótar þýða kröfu um viðbótarniðurskurð hjá framhaldsskólum um 1%. Til að mæta slíkum kröfum yrði óhjákvæmilegt að skerða þjónustu framhaldsskóla, einkum hjá þeim skólum sem bjóða upp á verknám. Það er við þessar aðstæður sem þetta frumvarp er lagt fram. Í því felst, eins og ég kom að áðan, að ákvæði 2. mgr. 7. gr. eldri laga um heimildir framhaldsskóla til innheimtu efnisgjalda og hámark þeirra gilda þá óbreytt út skólaárið 2011–2012. Ég legg ríka áherslu á að hér er um að ræða tímabundna ráðstöfun til að mæta erfiðleikum í ríkisfjármálum. Ég vil líka minna á að þegar ný framhaldsskólalög voru samþykkt voru fulltrúar allra stjórnmálaflokka sammála um að þessi gjöld skyldu niður felld og fögnuðu þeirri ráðstöfun. Við lítum hins vegar svo á að þetta sé þá sársaukaminni aðgerð en að ráðast í 200 milljóna niðurskurð og minni einnig á að hér er ekki um nýja innheimtu að ræða heldur óbreytta innheimtu og ekki hækkun á gjaldinu.

Ég mun ekki hafa frekari orð í þessari framsögu en legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. menntamálanefndar að lokinni 1. umr.