Samgöngumál -- Icesave

Föstudaginn 24. júlí 2009, kl. 10:52:21 (3791)


137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

samgöngumál – Icesave.

[10:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég mun virða tímamörkin. Ég ræddi áðan um samgöngur og mikilvægi þess að við forgangsröðum rétt og tryggjum öryggi vegfarenda og eðlilegar samgöngur milli svæða. Ég sagði það áðan að líklega væri ríkisvaldið að spara einhverjar 20 millj. kr. með því að fresta eða falla frá framkvæmdum við Laxárdalsheiði, þ.e. veginn um Laxárdal, frá enda slitlagsins við Höskuldsstaði og út fyrir Leiðólfsstaði 20 millj. kr. Við virðumst geta leyft okkur að setja milljarð plús 2 milljarða í að sækja um aðild að Evrópusambandinu, ekki að fara í viðræður. Við virðumst geta borgað 2 milljarða kr. í lögfræðikostnað fyrir erlenda lögmenn sem hafa það að vinnu að kúga Ísland í raun og veru en við getum ekki haldið áfram með vegaframkvæmdir sem kosta nokkra tugi milljóna. Hver er forgangsröðunin í landinu í dag? Við vitum að vegaframkvæmdir eru líklega einhver arðbærasta framkvæmd sem við getum farið í þessa dagana. Við erum ekki að tala eingöngu um hvað verktakar og launamenn og aðrir hafa út úr þessu heldur hvað það er þjóðhagslega hagkvæmt að tengja betur byggðirnar og treysta vegasambandið.

Sá vegur sem hér um ræðir er ekki síður mikilvægur en vegtenging út úr borginni vestur um því að þetta er varaleið milli norður- og suðursvæðisins, þetta er öryggisvegur. Þetta er ein helsta samgönguleiðin um þetta svæði og þetta verður ein helsta samgönguleiðin þegar Arnkötludalur verður kominn í gagnið.