137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

munnleg skýrsla fjármálaráðherra um eigendastefnu ríkisins á fjármálafyrirtækjum.

[11:56]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er löngu tímabært að ríkisvaldinu sé mörkuð eigendastefna enda rekur ríkið fjölda fyrirtækja. Sú stefna sem við ræðum hér nær eingöngu til fjármálafyrirtækja en fram kemur að henni sé jafnframt ætlað að vera grunnur að almennri eigendastefnu ríkisins sem unnin verður á næstunni og á að ná til allra þeirra félaga og fyrirtækja sem ríkið á hlut í. Nágrannalönd okkar hafa öll mótað slíka stefnu og hafa erlendir ráðgjafar ríkisstjórnarinnar eindregið mælt með því að slík stefna sé mótuð og gagnrýnt að hún sé ekki til staðar.

Samhliða eigendastefnunni er unnið að því að flytja eignarhald opinberra fyrirtækja til fjármálaráðuneytisins og styrkja þannig þekkingu, samræmi og reynslu í hlutverki ríkisins sem eiganda og skilja að eigendahlutverk, reglusetningu og eftirlit. Þær áætlanir styð ég heils hugar.

Á þessari stundu er ekki ljóst til hversu margra fjármálafyrirtækja sem alfarið verða í eign ríkisins stefnan mun ná en ljóst er að hún mun a.m.k. ná til Landsbankans. Það má vel vera að endurskoða þurfi ákveðin atriði stefnunnar ef skilanefndir Glitnis og Kaupþings taka yfir rekstur Íslandsbanka og nýja Kaupþings en að öðru leyti tel ég stefnuna góða.

Frú forseti. Vantraust gegnsýrir íslenskt samfélag og mikilvægt er að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að endurvekja traust á stofnanir samfélagsins. Ég vil því ræða sérstaklega það meginmarkmið stefnunnar sem lýtur að uppbyggingu trausts og trúverðugleika á íslenskum fjármálamarkaði. Þar segir m.a. að rekstur og stjórnun fjármálafyrirtækja þurfi að vera hafin yfir vafa og leiðbeiningar og reglur sem unnið er eftir að vera skýrar og aðgengilegar. Ég tek heils hugar undir það markmið en til að það verði uppfyllt þarf að hafa föst tök. Í bönkunum í dag starfa margir stjórnendur sem eiga persónulegra hagsmuna að gæta vegna fyrirgreiðslna sem þeir fengu. Þá var útlánastarfsemin oft og tíðum óábyrg í meira lagi og sama fólk og tók ákvarðanir um lánveitingar á nú að greiða úr vandanum gagnvart viðskiptavinum. Það er óásættanlegt fyrir íslenskan almenning að ekki sé skipt um stjórnendur í fjármálakerfinu og verður nánast ógjörningur að skapa trúverðugleika í kringum starfsemina ef þeim sem stuðluðu að vandanum er treyst fyrir því að leysa hann. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Til að þessi stefna verði pappírsins virði er það forgangsverkefni fjármálaráðuneytisins sem fer með eignarhald allra þriggja stærstu bankanna um þessar mundir að tryggja að öllum stjórnendum sem verið hafa óábyrgir í lánveitingum eða óhóflegum persónulegum lántökum hjá viðkomandi banka verði veitt lausn hjá störfum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það sama þarf að tryggja hjá skilanefndum bankanna, jafnt hjá nefndarmönnum sem starfsmönnum þeirra. (Gripið fram í.)

Sjálfstæðisflokknum vil ég veita þau ráð að sýna fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar um ábyrga eigendastefnu sömu auðmýkt og þeir auðsýna fulltrúum sínum í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins og þá sérstaklega fulltrúanum sem ber ábyrgð á einu stærsta, alvarlegasta og dýrkeyptasta hneyksli Íslandssögunnar, Icesave-reikningunum.