Kjararáð o.fl.

Þriðjudaginn 11. ágúst 2009, kl. 16:51:05 (3917)


137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[16:51]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur vel verið að einhverjir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi á einhverjum tíma talað um að eðlilegt væri að setja þak og að miða ætti við laun forsætisráðherra. Þó held ég samt sem áður að menn hafi kannski — ja, ég tala bara fyrir sjálfa mig, ég mundi alla vega halda að við þyrftum að skoða hvort það þak sé raunverulegt. Raunveruleikinn er sá að nú þegar eru mörg hundruð ríkisstarfsmenn á hærri launum en hæstv. forsætisráðherra og ég nefni heilbrigðisstéttina sérstaklega. Ég skil ekki, og það er það sem ég vil og leyfi mér að kalla hræsni, virðulegi forseti, að þú náir þessum markmiðum nema með því aðeins að þú missir hæft fólk út úr þessum geirum og það sem ég óttast miklu meira er að þú missir þetta fólk úr landi. Þá vil ég aftur nefna heilbrigðisstarfsmenn sérstaklega og þar óttast ég að við gætum átt við raunverulega atgervisflótta að stríða og það er ekki það sem ég óska okkar góðu þjóð.

Varðandi aðkeyptu ráðgjöfina vil ég segja það, og það var það sem ég var að leita eftir hjá hv. þingmanni: Er þetta kannski ein leiðin sem menn munu nota til að komast fram hjá þessum lögum? Ég þarf enga kristalskúlu til að spá fyrir um að farið verði fram hjá þessum lögum með öllum tiltækum ráðum og við vitum að þegar þú stendur í því að þurfa að ráða til þín fólk og það er samkeppni milli einkageirans og ríkisgeirans að ef þú ert með einhver bullákvæði eins og þarna eru munu menn kaupa ráðgjöf í verktakagreiðslum. Menn munu koma með alls konar sport, bílastyrki, ferðapeninga, ferðafólk á ráðstefnu (Forseti hringir.) og gera alls konar brellur, leyfi ég mér að segja, til að vera samkeppnisfærir. Þess vegna, (Forseti hringir.) virðulegur forseti, eru þessi lög hræsni.