Umhverfisgjöld tengd ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 12. ágúst 2009, kl. 18:31:45 (4015)


137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

umhverfisgjöld tengd ferðaþjónustu.

153. mál
[18:31]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mér er greinilega þakklæti ofarlega í huga í dag en ég þakka fyrir þessa góðu fyrirspurn. Það er rétt að í stjórnarsáttmálanum segir að kannaður verði grundvöllur þess að leggja á umhverfisgjald tengt ferðaþjónustu. Það er ljóst að aukið fjármagn þarf til viðhalds og uppbyggingar ferðamannastaða enda er ferðamönnum að fjölga mjög hér á landi umfram það sem gerist að meðaltali í öðrum löndum Evrópu. Sem dæmi má nefna að frá árinu 2002 hefur ferðamönnum hér á landi fjölgað úr því að vera 278 þúsund í 502 þúsund á síðasta ári. Þetta er mikil fjölgun á skömmum tíma.

Núna í ár þegar samdráttur er í heiminum horfum við fram á að ferðamannafjöldinn sem hingað kemur á þessu ári stendur líklega í stað miðað við árið í fyrra. En á meðan er allt að 20% samdráttur í heimsóknum ferðamanna til ríkjanna í kringum okkur sem við berum okkur saman við þannig að það er þó ljós í myrkrinu þrátt fyrir þá stöðu sem við erum í.

En aftur að efninu. Enn hefur engin ákvörðun verið tekin um það hvort og þá á hvaða stöðum krafist verður aðgangseyris eða hvaða aðferðum yfir höfuð verði beitt við að innheimta þessi gjöld. Grundvöllurinn hefur þó verið kannaður í Ferðamálaráði þar sem helstu hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu eiga fulltrúa en ráðið er ráðgefandi við iðnaðarráðherra samkvæmt lögum um skipan ferðamála frá árinu 2005.

Þær leiðir sem kynntar voru í Ferðamálaráði í október árið 2008 eru að í fyrsta lagi er hægt að fara þá leið að innheimta gjald af öllum ferðamönnum frá Íslandi hvort sem þeir ferðast með flugi eða skipi. Í öðru lagi væri hægt að hugsa sér að innheimta gjald af öllum atvinnurekendum á Íslandi, leggja t.d. 0,05% ferðamannagjald á gjaldstofn til greiðslu tryggingagjalds samanber álagningu og innheimtu markaðsgjalds samkvæmt lögum um útflutningsaðstoð frá árinu 2002. Í þriðja lagi var í Ferðamálaráði kynntur sá möguleiki að hugsanlega væri hægt að útfæra þetta þannig að innheimt væri gjald af atvinnurekendum í ferðaþjónustu en menn telja að sú leið gæti orðið frekar snúin þar sem ferðaþjónustan er ekki skilgreind sem sérstök atvinnugrein í þjóðhagsreikningum.

Ferðamálaráð taldi leið tvö, sem ég nefndi, helst færa en þó var settur sá fyrirvari að með fjölgun ferðamanna ykjust tekjur ríkissjóðs og því væri eðlilegt að hann fjármagnaði uppbyggingu ferðamannastaða án þess að til sérstakrar skattheimtu kæmi.

Aðrar aðferðir sem kæmu til greina eru t.d. að hluti veggjalds fari til úrbóta á ferðamannastöðum, gistináttagjald eða aðgangseyrir. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði að þessi umræða hefur oft komið upp og má líka segja frá því hér að í könnun sem gerð var á ferðamannastöðum árið 2003, um viðhorf ferðamanna til gjaldtöku á þessum ferðamannastöðum, var kannaður vilji innlendra og erlendra ferðamanna til að greiða aðgangseyri við Gullfoss og í Skaftafelli ef tekjurnar mundu renna til staðanna sjálfra. Á þessa staði kemur hálf milljón ferðamanna á ári, varlega áætlað. Í þessari rannsókn árið 2003 kom fram að 94% gesta við Gullfoss voru reiðubúin að borga meðalupphæðina 333 kr. samkvæmt verðlagi ársins 2009 og 93% gesta í Skaftafelli voru reiðubúin að borga meðalupphæðina 508 kr. Ferðamálastofu hefur verið falið að afla nýrri upplýsinga um afstöðu ferðafólks á þessum stöðum og taka þá fleiri staði í þá könnun þannig að við fáum skýrari mynd af stöðunni eins og hún er núna af viðhorfum gestanna.

Þá er spurt hvenær þessi gjaldtaka kæmi til framkvæmda. Aðferðafræðin er ekki útrædd þannig að það er óvíst hvort og þá hvernig það mun verða gert en það má segja frá því að fjármálaráðherra hefur óskað eftir tilnefningu í nefnd sem verður skipuð innan skamms til að meta og gera tillögur um hvort og hvernig að slíkri gjaldtöku verði staðið. Í þeirri nefnd eiga sæti fulltrúar umhverfisráðuneytisins, iðnaðarráðuneytisins, Samtaka ferðaþjónustu, náttúruverndarsamtök fá einn sameiginlegan fulltrúa og síðan er formaðurinn tilnefndur af fjármálaráðherra sjálfum. Þessum hópi er ætlað að fara yfir þær kannanir sem gerðar hafa verið á viðhorfum og þeim möguleikum og útfærslu sem ég hef nefnt hér og hugsanlega fleira.