Áætlaður kostnaður við ýmis verkefni

Miðvikudaginn 12. ágúst 2009, kl. 19:24:24 (4035)


137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

áætlaður kostnaður við ýmis verkefni.

151. mál
[19:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram hjá þeim sem hafa gert athugasemdir að þetta er ekki auðvelt verkefni en það var alveg vitað þegar stjórnarsáttmálinn var samþykktur. Þess vegna kemur mér nokkuð á óvart hvernig hann hljómar en svör hæstv. ráðherra koma ekki á óvart, því þau eru nánast engin. Við þurfum að fara betur yfir þetta og fá svör við spurningunum, það er þó nokkuð síðan þessi fyrirspurn var lögð fram og við eigum kröfu á því að fá nánari útskýringar. Til dæmis svaraði hæstv. ráðherra engu um 2. tölulið. Hvernig er ætlunin að afla fjármuna til þessara verkefna?

Þetta eru erfiðir dagar hjá hæstv. fjármálaráðherra og ég ætla ekki að skammast mikið í honum þó að ég áskilji mér allan rétt til að fylgja þessu eftir. Mér fyndist gott að hann kæmi með nánari útlistanir, sérstaklega á því hvernig á að ná í fjármuni til þessara verkefna. Ég fagna þó að loksins er kominn skilningur hjá hæstv. ráðherra á því að við þurfum að nýta betur þá fjármuni sem við höfum til að halda uppi þjónustustigi. Við höfum engan annan valkost. Ég man hvernig umræðan um fjárlögin var í desember, þá fannst mér þingmenn Vinstri grænna almennt hafa nákvæmlega engan skilning á því og þeir töluðu eins og allar tilraunir til að ná því sem nú er verið að gera væru gerðar af tómri illkvittni, en svo var ekki. Við verðum að gera þetta til að halda uppi þjónustustiginu. Við munum hjálpa ráðherra eins og við getum til þess en við hljótum að gera þá kröfu að fá skýr svör um það sem liggur fyrir og hvað menn ætlast fyrir svo að við getum farið vel yfir það.