Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 09:56:03 (4128)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[09:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fjargviðrast við hv. þingmann um aðdraganda þessa máls. Ég ber auðvitað ábyrgð á því að hafa hlustað á og fengið kynningu um samninginn og ekki gert athugasemdir við að hann yrði undirritaður. Það var í samræmi við það hlutverk sem samþykkt var með þingsályktunartillögu 5. desember að ganga ætti frá málinu og þar voru engin önnur ákvæði en að viðkomandi samninganefnd fengi til þess fullt umboð. Síðan var sett inn í samninginn, sem er auðvitað sjálfsagt, eðlilegt og nauðsynlegt, að samningurinn öðlaðist ekki gildi nema til kæmi ríkisábyrgð sem Alþingi fjallaði um og þar með fjallaði um samninginn í heild sinni. Nákvæmlega þetta gerðum við og árangurinn af því liggur fyrir. Ég tel því ekkert óeðlilegt við þessa málsmeðferð og enga ástæðu til að leggja mönnum til einhverjar hvatir eins og hér hefur komið fram.