Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 15:56:39 (4221)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:56]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar hafa verið lögð drög að því og það undirbúið hvernig hægt er að standa að kynningu þegar þessu máli lýkur en ég held að við höfum ekki efni á að bíða með það í hálfan mánuð eða hvað hv. þingmaður nefndi að klára það. Það er það margt undir í þessu efni, það er margt sem bíður í efnahagslegri úrlausn sem hangir á þessu máli eins og hv. þingmaður veit og við höfum farið yfir. T.d. lánasamningarnir varðandi Norðurlöndin. Að hluta til er það Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og endurskoðun á áætluninni. Ég býst við að það hafi eitthvað að segja um lánshæfismat þjóðarinnar hver verður niðurstaðan í þessu máli. Jafnvel hefur þetta áhrif á stýrivexti, það hefur áhrif á það hvort erlendir aðilar hafi áhuga á að verða eignaraðilar að íslenskum bönkum. Allt er þetta mikilvægt fyrir endurreisn efnahagslífsins og hver dagur sem líður tel ég mjög mikilvægan í því að við getum farið að vinna betur að þessari endurreisn sem margt hangir á að því er varðar þessi Icesave-mál. (PHB: Hvað með ríkisábyrgðina?)

Með ríkisábyrgðina er ljóst að það liggur alveg fyrir hvernig þingið afgreiddi hana. Hún gildir fram til 2024 og þá þarf að taka upp viðræður aftur þegar fyrir liggur hvernig uppgjörið verður.