Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 16:38:04 (4228)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var skondin og dálítið skemmtileg tilraun til að tengja Framsóknarflokkinn máli sem hann einmitt á enga aðkomu að og nýtur þar af leiðandi töluverðrar sérstöðu ásamt Borgarahreyfingunni. Það er þó rétt að útskýra eða gefa hv. þingmanni svar við spurningunni.

Það er alveg rétt að Framsóknarflokkurinn veitti minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna vernd gegn falli. Það var gert til þess að útskýra fyrir fólki, sýna fólki hvað fælist í svona ríkisstjórn, hvað fælist í hreinni vinstri stjórn. Það tel ég að menn hafi séð strax á fyrstu vikunum og svo sannarlega á fyrstu þremur mánuðunum. Þess vegna varð ég svo undrandi, ég skal bara viðurkenna það, ég varð stórundrandi að sjá þegar þessi ríkisstjórn náði að halda meiri hluta. Ég taldi að þegar menn væru búnir að sjá hvað í þessu fælist gætu þeir ekki annað en fellt þann möguleika að þessir tveir flokkar störfuðu áfram. En þetta voru skrýtnir tímar og skrýtnir hlutir gerðust. Við verðum að vona að þetta verði ekki heil fjögur ár, ekki væri það skemmtilegt, þó að sú tilraun til að vara við því sem í hönd fór hafi ekki tekist.