Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 17:34:32 (4254)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá er þetta staðfest, ég þakka hv. þingmanni fyrir það og ég er sammála lýsingu hans á málinu. Ég verð að vísu að viðurkenna að mér líður ekki vel með hraðann á þessu stóra máli miðað við þær áætlanir sem uppi eru um að klára þetta einn, tveir og tíu og þegar menn hafa unnið að því á næturnar. Það er ekki góður bragur á svo stóru hagsmunamáli.

Ég vildi spyrja hv. þingmann hvort það hafi ekki komið hv. þingmanni á óvart hversu lítil umræða er um þessa miklu galla sem innlánstryggingarkerfið er og reglugerðarverkið sem við tókum upp á vegum Evrópusambandsins. Og hvað Samfylkingin kannast ekkert við málið þegar helstu forustumenn hennar, hvort sem það er bankamálaráðherra eða forstöðumaður Fjármálaeftirlitsins, hafa með beinum hætti komið að þessum málum. Látum nú vera (Forseti hringir.) þær pólitísku áherslur Samfylkingarinnar í ofanálag um að allt lagist þegar við förum enn þá dýpra inn í Evrópusambandið en við erum núna með EES-samningnum.