Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 18:20:29 (4274)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:20]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir áminningu hans. Mig langar til að fara aðeins með þetta lengra og fá að lesa hér 40. gr. stjórnarskrárinnar, með leyfi forseta, en þar stendur:

„Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.“

Þarna er þetta ákvæði alveg skýrt. Alþingi þarf að samþykkja ríkisábyrgð. Það má vel vera að Bretar hafi ekki gert sér grein fyrir því að Alþingi þyrfti að samþykkja ríkisábyrgð en samninganefndin hefði a.m.k. átt að geta gert sér það í hugarlund, enda er þetta komið hér inn á borðið sem staðfestir það aftur sem kom fram í umræðum í dag, það var með ólíkindum að ríkisstjórnin skyldi fara fram með þetta mál án þess að hafa fyrir því þingmeirihluta. Það var náttúrlega alveg vitað að þegar svona samningar kæmu heim og væru kallaðir glæsilegir og góðir yrði mikil andstaða við þá.

Mér hefur orðið svolítið tíðrætt um hótanirnar sem beint hefur verið að þingmönnum, óbeinar hótanir um að þetta gerist ef þetta gerist, ef a gerist þá gerist b og c og allt neikvætt og ómögulegt og svart. Það er sú hótun sem hefur gengið núna nokkuð lengi, bæði á þingi og í fjölmiðlum, að hér fari allt í kaldakol ef við veitum ekki þessa ríkisábyrgð. Hv. þingmaður kom vissulega inn á það, rétta punktinn í þessu máli. Það sem gerist er að Alþingi veitir ekki þessa ríkisábyrgð og það fyrsta sem Bretar gera þá er að tæma innstæðutryggingarsjóðinn og hirða það sem eftir er í Landsbankanum og fara svo í mál við okkur til að ná restinni.

Það verður ekki heimsendir þó að þessi ríkisábyrgð verði ekki veitt á þessum fölsku forsendum.