Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 11:09:19 (4400)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst varðandi það hvað gerist árið 2024. Hæstv. forsætisráðherra svaraði því í gær, reyndar eftir dálitla eftirgangsmuni, að ríkisábyrgðin félli niður. Það má vel vera, frú forseti, að við þurfum að segja bara að ríkisábyrgðin gildi 2016 til og með 2024, hafa það bara kristaltært því að það lesa allir það út úr 3. gr. frumvarpsins að hún á að gilda á þessum árum, ekkert fyrir og ekkert eftir. En það má vel vera að það þurfi að skerpa á því.

Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni með það að þetta eru ekki nauðasamningar, þetta eru nauðungarsamningar, og ég vildi m.a.s. láta það standa í textanum. Ég gerði tillögu um að það stæði í textanum ríkisábyrgð í samræmi við nauðungarsamning, dags. 5. júní 2009. (Gripið fram í: Af hverju gafstu það eftir?) Það er enn til umræðu. Það mundi vissulega vekja virkilega mikla athygli úti um allan heim, því að þetta eru nauðungarsamningar, það er ekki hægt að segja neitt annað.

Varðandi þessi lögfræðilegu atriði um samninginn sjálfan. Samningurinn sjálfur getur ekkert skuldbundið Alþingi Íslendinga í því að veita ríkisábyrgð. Alþingi Íslendinga samkvæmt stjórnarskrá setur þá ríkisábyrgð sem Alþingi Íslendinga dettur í hug. Alþingi Íslendinga gæti t.d. sagt: Á þennan samning veitum við einnar millj. kr. ríkisábyrgð og ekkert umfram það. Svo er það spurning hvort samningsaðilarnir sætti sig við það. Ég get ekki séð að eitthvert fólk úti í bæ, hvort sem það yrði sendinefnd breska þingsins, ríkisstjórnarinnar eða íslenska sendinefndin geti skuldbundið (Forseti hringir.) ríkissjóð Íslands.