Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 11:15:53 (4403)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:15]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Með bréfi, dags. 21. júlí 2009, kynnti ég þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs afstöðu mína eða réttara sagt ítrekaði afstöðu mína til Icesave-samningsins, að gefnu tilefni. (Gripið fram í: Hvenær?) 21. júlí 2009, til Icesave-samningsins og til frumvarpsins. Ég kaus að opinbera ekki afstöðu mína sem ég birti í þessu bréfi í ljósi þess hve málið var á viðkvæmu stigi, í ljósi þess hversu orð eru dýr í þessu máli og í þeirri einlægu von að breið sátt tækist um málið milli þings og þjóðar, milli þingflokkanna og innan þingflokkanna, vegna þess að þetta mál, eins og hér hefur komið fram, er þverpólitískt. Þetta er þverpólitískt mál sem allir eiga sína ábyrgð á og hafa sýn á að leysa. Það var erindi mitt.

Ég ætla nú að rekja afstöðu mína til málsins og byggi þar á þessu bréfi og mun ýmist flytja útdrátt úr því eða lesa það beint upp. Eins og mörgum ykkar er eflaust kunnugt lagðist ég af miklum þunga gegn þeim tillögum sem samþykktar voru á þingi 5. desember 2008 um Icesave-samningana og um samninga við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég talaði þar m.a. um ólögmæta nauðungarsamninga, að við værum ekki ábyrg o.s.frv. Ég vitnaði í þeim ræðum máli mínu til stuðnings til virtra fræðimanna. Ég vitnaði títt og ótt til Bjargar Thorarensen, prófessors í lögfræði við Háskóla Íslands, sem talaði í 1. des. ræðu um ólögmæta nauðungarsamninga og rökstuddi það vel. Ég vitnaði í ræðu minni til Stefán Más Stefánssonar, prófessors í lögfræði, emerítus held ég að hann sé, og Lárusar Blöndals hæstaréttarlögmanns, sem færði að því sterk rök að Ísland hefði á grundvelli skuldbindinga sinna samkvæmt EES innleitt tilskipun um Tryggingarsjóð innstæðueigenda á fullkominn og ljósan hátt. Ég færði þar líka til rökstuðnings ásamt fleiru að Ríkisendurskoðun hefði gert athugasemd við hvernig tryggingarsjóðurinn var færður sem hluti í B-hluta ríkisreiknings. Við það gerði ríkisendurskoðandi athugasemd í því ljósi að sjóðurinn væri óviðkomandi ríkissjóði og ætti ekki að vera inni á ríkisreikningi. Þetta væri sjálfstæður sjóður sem ætti ekki að vera inni á ríkisreikningi.

Ég minnti líka á og taldi það fram sem rök að eftiráríkisábyrgð væri brot á fjórfrelsinu, þ.e. ég hélt að það væri brot á fjórfrelsinu og samkeppnisreglum ESB. Hefðum við samþykkt þessa ríkisábyrgð í janúar 2008 hefðum við fengið mikla skömm í hattinn frá Eftirlitsstofnun ESA. Þessar ræður mínar eru á vef Alþingis auk þess sem ég tjáði mig ítarlega í blöðum og m.a. í viðtali á Útvarpi Sögu.

Hv. þm. Pétur Blöndal hefur síðan lýst þeirri erfiðu stöðu sem við vorum í eftir 6. október, sem ég gerði mér fullkomlega ljósa. Það var m.a.s. þannig að við áttum hugsanlega í erfiðleikum með að flytja inn lyf, fóður o.fl., það var stutt í birgðum t.d. í fóðri. Við vorum í verulegum erfiðleikum á þessum tíma, menn verða að skoða þetta heildstætt í ljósi þess.

Tilefni þess að ég skrifaði þetta bréf var að ég mætti sem varamaður, hef ekki átt aðkomu að þessu máli sem þingmaður í nefndum, þeim þremur nefndum sem fjallað hafa um málið, en ég mætti sem varamaður á fund utanríkismálanefndar 20. júlí í sumar — og reyndar var ég ekki á þingi í júní af persónulegum ástæðum. Þar voru kynnt drög að áliti í Icesave-málinu til fjárlaganefndar. Þar var forsaga málsins rakin og m.a. talið í álitinu að sterk rök væru fyrir því að tilskipun um innstæðutryggingar eigi ekki við um allsherjarbankahrun. Því er lýst að ráðamenn þjóðarinnar hafi bundið okkur með viljayfirlýsingum, með bréfum og loks samningi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að greiða lágmarkstryggingu hvers reiknings.

Þarna höfðum við, verð ég að segja, í síðasta lagi 5. desember 2008 og 6. janúar 2009 og vikurnar á undan, eftir bankahrunið 6. október, skuldbundið okkur með yfirlýsingum og öðrum hætti, skuldbundið okkur að mínu mati siðferðilega sem stjórnmálamenn og skuldbundið okkur lagalega líka. Þar er málið erfiðara. Það er staðfest í drögum sem ég las þar að óviðunandi þvingunum hafi verið beitt. Þar segir orðrétt, með leyfi frú forseta:

„Var sú hætta álitin fyrir hendi að tækist ekki að finna lausn á Icesave-deilunni kynni það að setja aðild Íslands að EES-samningnum í uppnám auk þess sem lausn væri forsenda aðkomu Norðurlanda að efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þess má geta að á meðan ágreiningur aðila um þetta efni var óleystur var sú hætta fyrir hendi að Evrópusambandsríkin gripu til aðgerða gagnvart Íslandi sem settu EES-samninginn að hluta eða heild í hættu.“

Þetta er grafalvarlegt mál. Meiri hluti nefndarinnar þá — þetta eru drög að nefndaráliti sem ég er að vísa í — mat það svo að taka bæri mark á þessum hótunum ella væri hætt við alþjóðlegri einangrun Íslands. Enn fremur að næsta víst væri að endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins mundi tefjast eða verða stöðvuð ef ekki yrði staðið við svonefnda skuldbindingu Íslands vegna Icesave. Þetta skyldu menn hafa í huga. Þetta er ekki sérstaklega viðkunnanlegt en menn skyldu hafa þetta í huga. Og þetta varð raunin (Gripið fram í.) með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn núna í sumar að afgreiðsla á fyrirgreiðslu tafðist og er enn í töfum. (VigH: Ekki eingöngu.) Ég bið hv. þingmann að leyfa mér að flytja ræðu mína í friði — hún hefur málfrelsi hér í ræðustól — og glamra ekki fram í hverja einustu ræðu sem flutt er hér. Það lærði ég í barnaskóla að grípa ekki fram í þegar aðrir tala.

Fleira er tíundað í drögunum sem eru óásættanlegar þvinganir og, með leyfi frú forseta, vil ég lesa aftur:

„Utanríkismálanefnd gagnrýnir hvernig ríkin tvö“ — þ.e. England og Holland — „hafa að því er virðist nýtt sér stöðu sína í framkvæmdastjórninni“ — þ.e. Alþjóðagjaldeyrissjóðsins — „til að tengja aðstoð við Ísland við lausn Icesave-deilunnar og telur framgöngu þeirra dæmi um hvernig sterk ríki geta misnotað aðstöðu sína innan alþjóðastofnana gagnvart smærri ríkjum. Hið sama á við um beitingu hryðjuverkalaganna, sem var óafsakanlegt framferði af hálfu breskra stjórnvalda í Íslands garð. Því miður er ljóst að þessi pólitíska tenging er til staðar sem ein af forsendum efnahagsáætlunar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.“

Það er algjörlega ljóst að við misstum af tækifæri til að kæra stjórnvaldskæru beitingu Breta á hryðjuverkalögunum gagnvart okkur. Þar með fór það úr. Það var alveg ljóst að það var samþykkt með þingsályktuninni 5. desember 2008 að ganga samningaleiðina, menn voru sammála um að ganga samningaleið, menn voru ekki sammála um að vera ósammála og leita til dómstóla, það er kjarni þessa máls. Það gerði okkur allt miklu erfiðara eftir þessa samþykkt.

Ég greiddi atkvæði á móti henni ásamt þingflokki Vinstri grænna og hv. þm. Pétri Blöndal. Framsóknarþingmenn sátu hjá en aðrir greiddu atkvæði með tillögunni svo að því sé haldið til haga.

Í þessum drögum var lagt til að við samþykktum þessa samninga sem ég átti sem lögmaður afar erfitt með og gat aldrei unað að þeir yrðu teknir inn án þess að fyrirvarar yrðu settir við ríkisábyrgðina vel að merkja. Hér var auðvitað um að ræða þvinganir ríkja sem ég hélt að væru vinaþjóðir okkar. Það bætir ekki úr skák fyrir mér að við skulum hafa samþykkt umsókn um aðild að ríkjasambandi sem er okkur fjandsamlegt og vegur að efnahagslegu og pólitísku sjálfstæði okkar. Auðvitað eru órjúfanleg tengsl milli Icesave-samningsins, ESB-umsóknarinnar og fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. (Gripið fram í.)

Við misstum okkar sterkustu málsástæður og rök í síðasta lagi 6. janúar, 5. desember og vikurnar þar á undan. Þá var samningabrautin mörkuð og batt hendur okkar og vanefndir á þessum samningi sem menn gengu að með opnum hug hefðu að mínu mati gert okkur að pólitískum óreiðumönnum erlendis, að standa ekki við gerða samninga, eins og Grikkirnir sögðu: Pacta sunt servanda. Fyrri ríkisstjórn gerði þessa samninga. Ef við hefðum farið að hlaupa frá þeim hefðum við verið óreiðumenn þannig að við höfum þessa samningaleið sem blasir við og er hin bitra staðreynd. Svo er hins vegar allt annað mál, hv. þingmenn, hvort menn una við þennan samning eða ekki, það er hins vegar allt önnur deild.

Í nefndu bréfi fjallaði ég síðan um samninginn, einkum endurskoðunarákvæðið, og vil, með leyfi forseta, lesa það:

„Fleira kemur til. Í drögunum er vísað til endurskoðunarákvæðis í samningum Breta og Hollendinga, ákvæði sem eru afar opin og veik og gefa samningsaðilum okkar nánast sjálfdæmi um það hvort endurskoðun fari fram. Fjallað er um þessi endurskoðunarákvæði án þess að leggja upp með öruggar „flóttamannaleiðir“. Hér vil ég nefna nokkur atriði sem hljóta að gera endurskoðunarákvæði samninganna virk, jafnvel leiða til þess að forsendur samninganna séu þegar brostnar:

1. Fyrir liggur að skuldaþoli Íslands hefur hrakað verulega frá mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í október eða nóvember 2008. Má með sterkum rökum halda því blákalt fram að forsendur séu brostnar.

2. Það hlýtur að vera grunnforsenda að neyðarlögin haldi.

3. Ganga verður út frá því að forsendur séu brostnar og/eða endurskoðun brýn komi til þess að minna fáist fyrir eignir Landsbanka Íslands en 60–75% af verðmæti.

4. Sama gildir ef eignir Landsbankans ganga ekki fyrst til greiðslu ábyrgðar Íslands á undan kröfum Breta og Hollendinga, samanber álit Ragnars H. Halls og Eiríks Tómassonar.

5. Að útreikningar, forsendur þeirra, Seðlabanka Íslands um vöruskiptajöfnuð á samningstímabilinu o.fl. haldist.

6. Að kröfur Breta og Hollendinga verði ekki fullnustaðar í auðlindum þjóðarinnar og öðrum samfélagslegum eignum komi til greiðslufalls Íslands en um það virðist ríkja vafi.

Þessar brýnu samningsforsendur, fyrirvarar o.fl. gagnvart endurskoðunarákvæðinu verður Alþingi að skilgreina og vísa til þeirra í frumvarpi um ríkisábyrgð á Icesave. Ég verð enn fremur að benda á að í nefndum drögum utanríkismálanefndar er, ef eitthvað er, fremur dregið úr röksemdum okkar fyrir endurskoðun samanber m.a. ummæli um að verulegt tillit hafi verið tekið til heildarhagsmuna Íslands. Ég hef lagst yfir þetta erfiða og margslungna mál í margar vikur með afar opnum huga út frá heildstæðu mati. Með hliðsjón af framansögðu og fleiri ónefndum þáttum get ég ekki lagt blessun mína yfir frumvarpið og drög að áliti utanríkismálanefndar.“

Nú hefur það gerst, sem er afar mikilvægt í þessu máli og algjörlega mikilvægt gagnvart þjóðinni, að breið samstaða hefur náðst þótt þingið standi enn frammi fyrir tveimur afarkostum. Við stöndum frammi fyrir tveimur afarkostum. Annaðhvort að samþykkja samninginn eða fella hann. Í ljósi þeirra lagalegu og efnahagslegu fyrirvara (Gripið fram í.) sem nú hafa náðst og þeirrar breiðu samstöðu sem einnig framsóknarmenn lögðu sitt af mörkum til að næðist — því þótt framsóknarmenn vilji ganga lengra þá met ég vinnu þeirra sem leiddi til þeirra fyrirvara enda hafa þeir lýst ánægju sinni yfir efnahagslegu fyrirvörunum þó að þeir gagnrýni þá, þannig að það lögðu allir sitt af mörkum — í ljósi þessa var það mitt heildarmat að það væri illskásti kosturinn að samþykkja samninginn. Það virðist óforsvaranlegt að snúa af þeirri braut sem mörkuð var í desember með þingsályktun um að ganga til samninga og með samningi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn — það eru 6 eða 8 mánuðir liðnir. Að snúa af þeirri braut er að mínu mati afar erfitt. En það er svona rétt eins og að vera fara í bíl yfir Holtavörðuheiði og vera kominn langleiðina yfir og snúa svo við og fara Laxárdalinn, það er svipað. En það þarf að skoða vandlega milli 2. og 3. umr. hvort unnt sé að styrkja málið enn frekar til að takmarka tjón Íslands af þessum samningum, styrkja það enn frekar án þess að varpa fyrir róða grundvelli samningsins. Ég minni enn og aftur á að við erum að gera fyrirvara við ríkisábyrgð.

Ég segi líka, og vil halda því til haga, að það er Hollendingum og Bretum í hag að við getum staðið við þessa samninga. Það er grundvallarsamningsatriðið. Ég gæti farið hnarreistur bæði til Bretlands og Hollands og reifað þau sjónarmið að það sé þeim í hag að við ráðum við þetta án þessa að rústa okkar velferðarkerfi, menntakerfi, o.fl., það er grundvallaratriði.

Ég hef lagt fyrir ákveðna fulltrúa í fjárlaganefnd tillögur sem mér hafa borist frá Stefáni Má Stefánssyni, sem ég hef átt samræður við um þetta mál, og þá fyrirvara sem þegar eru komnir. Mér hafa borist frá honum hugmyndir sem ég álít skynsamlegar án þess að ég hafi lagt endanlegt mat á þær. Það styrkir m.a. eftirlitsþátt Alþingis gagnvart því að leitað verði réttar okkar, að Alþingi fylgist með því að leitað verði réttar okkar fyrir dómstólum ef til þess finnast leiðir þó að það séu þröngir kostir. Þessar tillögur liggja fyrir og ég þykist vita að fjárlaganefnd muni vinna að þeim af þeirri einurð sem einkennt hefur vinnu þeirra síðustu tvær til þrjár vikurnar.

Þetta vildi ég sagt hafa til að skjalfesta afstöðu mína í þessu máli. Það er mér beiskur kaleikur að samþykkja þennan samning. Það er mjög beiskur kaleikur. Það má kannski segja að maður sé að svíkja kjósendur sína en ég met hagsmuni þjóðarinnar ofar því eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði, fullkominn neyðarkostur en aðrar leiðir sýnast mér því miður ófærar í stöðunni í dag. Ég minni líka á það að alþingismenn eru bundnir af samþykktum og ákvörðunum fyrra þings ella verðum við að teljast pólitískir óreiðumenn og að við stöndum ekki við orð okkar. (HöskÞ: Og sannfæringu sinni.)

Ég vil að lokum, frú forseti, þakka öllum flokkum og þingmönnum sem hafa lagt hönd á plóginn og sýnt ábyrgð og pólitískan skilning á þeirri nauðsyn að ná samstöðu í þessu máli, ná sátt milli þjóðar og þings, ná sátt innan þingflokka, þetta er þverpólitískt mál. Ég vona að ég halli ekki á nokkurn mann en ég er þakklátur öllum sem hér hafa komið að þó að ég nefni eitt nafn aðeins í því samhengi og það er nafn Ögmundar Jónassonar.

Ég ítreka að það er unnt að gera betur milli 2. og 3. umr. og treysti fjárlaganefnd til þess.