Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 18:35:08 (4519)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Senn er komið að lokum 2. umr. um þetta mikilvæga mál og fer þá málið að nýju fyrir fjárlaganefnd þingsins sem unnið hefur prýðilega að framgangi þess á undanförnum vikum og mánuðum. Nefndin mun væntanlega taka til skoðunar þær ábendingar og tillögur sem fram hafa komið við 2. umr. málsins og halda áfram því ætlunarverki sínu að leiða málið til lykta í þverpólitískum farvegi sem allir tala nú fyrir og er það mjög vel.

Frá því að þetta mál kom fyrir þingið í byrjun júnímánaðar hefur mikið vatn runnið til sjávar. Í þjóðfélaginu hefur farið fram mikil og kröftug umræða um málið, bæði innan veggja Alþingis og utan þeirra og hefur verið varpað ljósi á ýmsa efnisþætti sem okkur sumum hverjum voru áður huldir. Allt þetta er til góðs tel ég vera og hefur orðið til þess að þoka málinu í þann farveg sem það er núna komið í.

Enn er mikill skoðanaágreiningur um þetta mál eins og alltaf hefur verið. Sumir hafa helst viljað samþykkja samninginn, aðrir hafa viljað fella hann. Þá er sá hópur sem hefur viljað fara þriðju leiðina og að ráði ráðgjafa sem hingað hafa komið, hvorki viljað fella samninginn né samþykkja hann heldur fara út í heim með þingsályktunartillögu þar sem fram komi vilji Íslendinga til að leysa þetta erfiða mál. Niðurstaðan eftir þessa umræðu alla er sú að menn eru að sameinast um það að setja fyrirvara við skuldbindingum Íslendinga inn í samninginn. Það er niðurstaða sem hefur mótast af pólitískum veruleika og svo aftur vilja manna til að ná samkomulagi. Ég tel mjög brýnt að menn reyni að ná samkomulagi og ég held að sú leið hafi orðið okkur til góðs, bæði vegna þess að ég tel málið betur úr garði gert nú en það áður var og svo er það hitt að samstaðan skiptir Íslendinga miklu máli, ekki bara núna heldur inn í framtíðina, að við stöndum saman um þær lausnir sem við ákveðum.

Menn ræða það hvort samningurinn eigi að taka gildi áður en gagnaðilar okkar hafa staðfest hann og við höfum fengið ábendingar utan Alþingis um að það sé hyggilegt. Ég tel að það sé rétt að þingnefndin, fjárlaganefnd skoði þetta mál rækilega og kveðji til sín bestu sérfræðinga til að leggjast yfir þennan þátt málsins. En frá mínum bæjardyrum séð er málið þannig vaxið að endanleg ákvörðun þegar kemur að skuldbindingum fyrir Íslands hönd liggur í þessum sal. Alþingi fer með löggjafarvald á Íslandi og Alþingi fer með fjárveitingavald á Íslandi fyrir hönd þjóðarinnar. Hér liggur valdið. Sá sem kemur til með að vefengja það vald vefengir jafnframt fullveldi Íslands. Þannig lítur þetta út frá mínum bæjardyrum. Mér finnst hins vegar rétt og skylt að taka það til skoðunar í fjárlaganefnd hvort hyggilegt sé að setja áréttingu um þetta efni inn í lagatextann og ég treysti fjárlaganefnd til að fara rækilega í saumana á því máli. En ég vildi greina frá því hver er grundvallarafstaða mín til þessa máls.

Þá fyrirvara sem settir hafa verið inn í frumvarpið tel ég vera mjög til bóta. Þarna eru reistir múrar, varnargirðingar um almannahag á Íslandi. Þá horfi ég til hinna lagalegu þátta þar sem við gefum ekkert eftir hvað varðar lagalegan rétt okkar og rétt okkar til að fá úr því skorið hverjar eru eiginlega skyldur okkar.

Í annan stað eru hinir fjármálalegu þættir. Það er nokkuð sem hefur verið til umræðu í þinginu allar götur frá því hrunið varð í október sl. Ég vísaði þá oft til ummæla hv. þm. Péturs H. Blöndals sem tók umræðuna upp á þeim grundvelli sem nú er að verða ofan á. Hann sagði reyndar að hann vefengdi þær skyldur sem settar væru þjóðinni á herðar í þessu máli, hann gerði það. En færi svo, sagði hann, að við yrðum neydd til að undirgangast þessar skyldur ætti að reisa efnahagslegar skorður af því tagi sem nú hafa orðið ofan á. Þetta vil ég nefna sem dæmi þess hvað gerist þegar menn hefja sig upp úr hinum flokkspólitísku hjólförum sem ekki eiga heima í máli af þessari stærðargráðu, þegar við leggjumst öll saman yfir málin sem þingmenn, sem Íslendingar til að komast að sem allra bestri niðurstöðu.

Ég er líka mjög sáttur við það sem fram hefur komið frá Borgarahreyfingunni sem innlegg í þetta mál og kröfu inn í endanlegan frágang málsins um að þar verði fest á blað svo óvefengjanlegt sé krafan um að við leggjumst yfir það að ná í eignir sem skotið hefur verið undan. Ég held að þetta séu mjög mikilvæg skilaboð sem Alþingi og Ísland sendir frá sér á þessu stigi málsins.

Hæstv. forseti. Ég tel að þær breytingar sem gerðar hafa verið á þingmálinu hafi gerbreytt því, hafi gerbreytt stöðunni málstað Íslands í hag og þar hafa allir flokkar lagt hönd á plóg. Sumir hafa gagnrýnt Framsóknarflokkinn fyrir þá afstöðu að vilja ganga enn lengra. Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram tillögur í þinginu þessa efnis. Það er mikilvægt og ég heyri það á fjárlaganefndarmönnum að þeir vilja skoða þær tillögur eins og við öll viljum gera vegna þess að saman erum við einfaldlega að reyna að finna bestu lausnina. Ég vona að við berum gæfu til að sameinast um þá lausn sem verður ofan á eftir að fjárlaganefnd hefur farið höndum um þetta mál.