Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 19:59:34 (4536)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[19:59]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég vil þakka hv. þm. Þór Saari fyrir þetta svar. Við deilum þeirri lífsreynslu að vera hér í þessum skóla, að hafa tekið sæti, við tvö ásamt 25 öðrum nýjum þingmönnum. Það hafa að sjálfsögðu komið upp stundir hér á þinginu þar sem nýjum vinnubrögðum hefur verið beitt. Ég tel að þetta sé Alþingi til sóma og ég hvet alla unga og nýja þingmenn — unga þá í starfsaldri, sama á hvaða aldri þeir eru — til þess að halda áfram að leita leiða til að ná betri árangri í störfum þingsins.

Vissulega var þetta ekki leiðin sem átti að fara með þetta mál, við vitum það öll sem hér sitjum að þetta mál átti að keyra inn í gegn á skömmum tíma án þess að sýna þau gögn sem ljóst er að þingmenn og þjóðin öll áttu skilið að fá að sjá. Þessi samstaða og þessi nýju vinnubrögð og sá hópur, sá nýi meiri hluti á þingi sem myndaðist gerði þó alla vega það að verkum að þingmenn eru að taka upplýstari ákvörðun um þetta mál en þeir hefðu að öðrum kosti átt kost á að fá hefðu forustumenn ríkisstjórnarflokkanna náð sínu fram.

En ég vil einfaldlega hvetja hv. þingmann til dáða og hvetja hann til þess ásamt öðrum nýjum þingmönnum að viðhafa ný, betri, lýðræðislegri, gagnsæ, fjölskylduvæn vinnubrögð hér á Alþingi. (Gripið fram í.)