Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 54. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Prentað upp.

Þskj. 54  —  54. mál.
Fyrirsögn.




Tillaga til þingsályktunar



um undirbúning mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

Flm.: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bjarni Benediktsson, Árni Johnsen,


Ásbjörn Óttarsson, Birgir Ármannsson, Birkir Jón Jónsson,
Einar K. Guðfinnsson, Eygló Harðardóttir,
Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðmundur Steingrímsson,
Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þórhallsson, Illugi Gunnarsson,
Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal,
Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir,
Sigurður Ingi Jóhannsson, Siv Friðleifsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson,
Unnur Brá Konráðsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela utanríkismálanefnd Alþingis að undirbúa mögulega umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Nefndinni er falið eftirfarandi hlutverk:
     1.      Að setja saman greinargerð um mikilvægustu hagsmuni Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið.
     2.      Að vinna vegvísi að mögulegri aðildarumsókn sem taki til umfjöllunar öll álitamál varðandi upphaf aðildarviðræðna og hvernig að þeim skuli staðið, auk þess að fjalla um nauðsynlegar ráðstafanir í tengslum við staðfestingu mögulegs aðildarsamnings.
    Nefndin ljúki framangreindum verkefnum sem allra fyrst og eigi síðar en 31. ágúst 2009.

Greinargerð.


    Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga utanríkisráðherra um að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Tillagan er lögð fram á grundvelli samkomulags stjórnarflokkanna þess efnis að Alþingi skuli ákveða hvort lögð skuli fram aðildarumsókn, en um það er ekki eining í ríkisstjórn Íslands.
    Flutningsmenn telja að með vönduðum málatilbúnaði megi stuðla að víðtækari sátt um málið í þjóðfélaginu en ríkisstjórn Íslands hefur lagt grunn að.
    Að mati flutningsmanna vantar mikið upp á að lagður hafi verið fullnægjandi grundvöllur að aðildarumsókn á þessu stigi. Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að utanríkismálanefnd verði falið það hlutverk að tryggja að meginhagsmunir Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið hafi fengið fullnægjandi faglega umfjöllun áður en ákvörðun um aðildarumsókn er tekin.
    Nauðsynlegt er, að mati flutningsmanna, að áður en afstaða er tekin til aðildarumsóknar verði að vera ákveðið með hvaða hætti viðræðum verður hrint af stað, hvernig þær fara fram og loks hvernig staðið verði að staðfestingu mögulegs samnings.
    Við framangreinda vinnu má m.a. byggja á skýrslu nefndar um þróun Evrópumála sem lauk störfum í apríl 2009, en starfstími nefndarinnar varð styttri en til stóð vegna Alþingiskosninga. Í nefndinni sátu fulltrúar allra þingflokka auk hagsmunaaðila en í lokaorðum skýrslunnar, sem út kom í apríl 2009, segir m.a.:
         ,,Samhljómur er […] meðal nefndarmanna um að nauðsynlegt sé að halda áfram umræðum um kosti og galla Evrópusambandsaðildar fyrir íslenskt samfélag á opinn og lýðræðislegan hátt.“
         „Nefndin telur […] að næsta ríkisstjórn ætti að leitast við að tryggja áframhaldandi umræðu um efni og málsmeðferð tengdum aðild Íslands að Evrópusambandinu.“
    Með vísan til framanritaðs er ljóst að víðtæk samstaða var um það í nefnd um þróun Evrópumála að enn ætti eftir að vinna þó nokkra undirbúningsvinnu áður en aðildarumsókn yrði lögð fram.
    Í niðurstöðum nefndarinnar skal gera grein fyrir mikilvægustu hagsmunum Íslands og helstu áhrifum aðildar fyrir íslenskt samfélag í víðu samhengi. Jafnframt að taka afstöðu til þess hvort það umboð sem Alþingi mögulega veitir til aðildarviðræðna skuli skilyrt með einhverjum hætti.
    Í þessari vinnu skal m.a. huga sérstaklega að fullveldi þjóðarinnar, sjávarútvegshagsmunum, m.a. réttindum innan fiskveiðilögsögu Íslands og hlutdeildar í flökkustofnum ásamt áhrifum á fiskveiðistjórnun. Jafnframt skal huga að fæðuöryggi þjóðarinnar og sérstöðu íslensks landbúnaðar, stöðu íslenskrar þjóðmenningar og þjóðtungu og einhliða úrsagnarrétti þjóðarinnar úr Evrópusambandinu. Þá verði fjallað um gerð stöðugleikasamnings við Evrópska seðlabankann til að tryggja stöðugt gengi krónunnar.
    Vítækt samráð skal haft við hagsmunaaðila vegna þessarar vinnu.
    Vegvísir vegna mögulegrar aðildarumsóknar skal fjalla um alla þá þætti sem taka þarf tillit til í tengslum við aðildarumsókn, svo sem:
     1.      Aðkomu þjóðarinnar að aðildarumsókn og staðfestingu aðildarsamnings.
     2.      Hvernig skipa skuli viðræðunefnd Íslands við Evrópusambandið.
     3.      Með hvaða hætti eftirliti Alþingis og upplýsingagjöf til þess skuli háttað á meðan mögulegar aðildarviðræður standa.
     4.      Hvernig staðið skuli að opinberum stuðningi við kynningu á niðurstöðum viðræðna við Evrópusambandið.
     5.      Hvaða stjórnarskrárbreytingar séu nauðsynlegar í tengslum við inngöngu í Evrópusambandið og hvenær þær skuli gerðar.
     6.      Áætlaðan kostnað vegna aðildarumsóknar.
    Þegar niðurstaða utanríkismálanefndar liggur fyrir er gert ráð fyrir að Alþingi ákveði næstu skref, þ.e. hvort gengið skuli til aðildarviðræðna við Evrópusambandið eða eftir atvikum hvort ákvörðun þar um skuli borin undir þjóðina í atkvæðagreiðslu.