Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 33. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 77  —  33. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta viðskiptanefndar.



    Nefndin ræddi frumvarpið að nýju eftir 2. umræðu og komu eftirtaldir gestir á fund nefndarinnar: Kristinn Bjarnason, aðstoðarmaður Landsbanka Íslands í greiðslustöðvun og stjórnarmaður í slitastjórn bankans, Jón Ármann Guðjónsson frá skilanefnd Sparisjóðabankans, Ragnar Þ. Jónasson frá skilanefnd Straums Burðaráss, Ragnar Hall frá slitastjórn Straums Burðaráss, Áslaug Árnadóttir og Jónína S. Lárusdóttir, fulltrúar viðskiptaráðuneytis, og Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra. Þá bárust nefndinni umsagnir og upplýsingar frá fjórum aðilum: skilanefnd Straums, lögmannsstofunni BBA-Legal, skilanefnd Sparisjóðabankans og skilanefnd Kaupþings.
    Líkt og fram kemur í áliti meiri hluta viðskiptanefndar á þskj. 55 er tilefni frumvarpsins það að talið er að lagaheimild skorti til að greiða laun starfsmanna í uppsagnarfresti og innstæðueigendum Kaupþings í Þýskalandi en ljóst er að síðarnefnda atriðið varðar mikilsverða hagsmuni þjóðarinnar. Hvað launagreiðslur varðar er ljóst að heimildin gagnast einkum tveimur fjármálafyrirtækjum og þar með um 200 starfsmönnum. Verði frumvarpið að lögum verður skilanefndum heimilt að greiða laun starfsmanna í uppsagnarfresti að hluta eða öllu leyti, þ.e. pro rata í samræmi við mat skilanefndar á því hvort fé sé nægt til að greiða forgangskröfur.
    Meiri hlutinn leggur til tvær breytingar á 1. gr. frumvarpsins, annars vegar til að hnykkja á þeim tímamörkum sem um ræðir og hins vegar til að hnykkja á því að unnt verði að greiða kröfu eða kröfur að hluta.
    Leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Efnismálsgrein 1. gr. orðist svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 6. mgr. 102. gr. er skilanefnd fjármálafyrirtækis, sem naut heimildar til greiðslustöðvunar við gildistöku laga nr. 44/2009, um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. ákvæði til bráðabirgða II, heimilt, á tímabilinu frá gildistöku laga þessara og þar til skilyrði eru fyrir efndum krafna á grundvelli 6. mgr. 102. gr., að greiða skuldir vegna launa, þ.m.t. laun í uppsagnarfresti, og vegna innlána sem veittur var forgangsréttur með 6. gr. laga nr. 125/2008, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki, ef víst er að nægilegt fé sé til að greiða að fullu eða í jöfnu hlutfalli kröfur sem gætu notið sömu eða hærri stöðu í skuldaröð.

Alþingi, 29. maí 2009.



Álfheiður Ingadóttir,


form., frsm.


Magnús Orri Schram.


Steinunn Valdís Óskarsdóttir.



Eygló Harðardóttir.


Lilja Mósesdóttir.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.