Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. febrúar 2010, kl. 15:51:12 (0)


138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:51]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það er mjög kallað eftir því í allri umræðu um efnahagsmál á Íslandi að við stjórnmálamennirnir reynum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja stöðugleika og jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar þannig að fyrirtækin og fólkið í landinu eigi möguleika á að vinna þjóðina úr þeirri kreppu sem nú stendur yfir. Þess vegna er mjög mikilvægt að þau frumvörp sem hér eru til umræðu beri þess merki að það sé ríkur vilji á Alþingi til að vinna mál með þeim hætti að ekki sé aukið á óstöðugleika og óvissu í efnahagslífinu. Það frumvarp sem hér liggur fyrir er augljóslega þeirrar gerðar. Þeir sem hafa farið í gegnum þetta frumvarp og velt því fyrir sér hvað hér er boðað sjá í hendi sér að hér er verið að gera breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem eru til þess fallnar að grafa undan greininni og verðmætasköpun í landinu. Því hljótum við þingmenn að bindast um það samtökum að stöðva það að þetta frumvarp nái fram að ganga.

Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrr í þessari umræðu að þau ákvæði sem sneru að úthlutun á aflaheimildum í skötusel mætti ekki túlka sem upphaf á fyrningu og reyndar væri, svo litið sé til orða hv. þingmanns, verið að taka úr potti sem aðrir væru ekki að nýta.

Grundvallaratriðið í fiskveiðistjórnarlöggjöfinni sem við vinnum eftir er hin svokallaða aflahlutdeild. Það er algjört grundvallaratriði. Og að hverju snýr það grundvallaratriði, frú forseti? Jú, það snýr að því að þeir sem eru í sjávarútvegi og þurfa stundum að sæta því að aflaheimildir séu skornar niður til að tryggja að við nýtum sjávarafla á Íslandi með sem hagkvæmustum og sjálfbærustum hætti geta treyst því að þegar aflaheimildir verða auknar munu þeir hinir sömu njóta þeirrar aukningar. Þess vegna eru menn tilbúnir til að taka á sig skerðingu með slíkum rökum. Margar þjóðir öfunda okkur Íslendinga af því að hafa komið slíku upp vegna þess að þar með er stuðningur hjá þeim sem starfa í sjávarútvegi við það að haga þannig málum að með ábyrgum hætti sé, það sé ekki verið að veiða of mikið.

Sú nálgun sem hér er lagt upp með er — hver? Það liggur fyrir að aflamarkið til þeirra sem stunduðu veiðar í skötusel var skert um 500 tonn. Með öðrum orðum hafa þeir nú minna til ráðstöfunar en áður og var það gert m.a. vegna þess að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar var um að það væri hinn eðlilegi afli sem væri hægt að standa við með vísindalegum rökum um það hvernig við ættum að veiða þennan stofn. Það væri ábyrg veiðistjórn.

Síðan kemur hæstv. sjávarútvegsráðherra úr flokki vinstri grænna, þeirra sem helst hafa skreytt sig með þeim hugtökum að þeir vilji sjálfbærni í allri nýtingu náttúruauðlinda. Þessi ágæti hæstv. ráðherra leggur til að farið verði langt fram úr þeim tillögum sem Hafrannsóknastofnun hefur sett fram með vísindalegum rökum um það hversu mikið eigi að veiða. Hér er ekki verið að tala um örfá prósent, 5, 6, 7, 8 eða 9%. Nei, frú forseti, hér er verið að tala um tugi prósenta, langt umfram það sem lagt er til. Nú kann vel að vera að hæstv. ráðherra ætli sér ekki að beita þessu, ætli sér ekki að úthluta en hið furðulega — og frávik frá allri þeirri nálgun sem við höfum haft til grundvallar — er að hér er ætlast til þess að Alþingi taki þátt í því með hæstv. sjávarútvegsráðherra að fara fullkomlega og algjörlega á svig við alla skynsamlega ráðstöfun.

Síðan virðist lítið ef nokkurt samráð hafa verið haft við Hafrannsóknastofnun um þetta mál. Það væri áhugavert ef hæstv. ráðherra gæti upplýst okkur um það hvort hann hefði fengið mat Hafrannsóknastofnunar á því hvaða áhrif það hefði á skötuselsstofninn ef veiða ætti jafnmikið fram yfir ráðgjöf stofnunarinnar og raun ber vitni og hve mörg ár væri hægt að stunda slíka rányrkju. Það væri áhugavert.

Með öðrum orðum er með þessu frumvarpi verið að taka úr sambandi samhengið á milli aflaúthlutunar og aflamarkskerfisins. Það er mjög alvarlegt mál og það skapar alveg gríðarlega óvissu í öllum sjávarútvegi. Enginn í þessari grein getur gengið að því vísu að áfram verði það fyrirkomulag veiðanna sem verið hefur, að menn ráði yfir og hafi yfirráðarétt yfir aflahlutdeild, að þegar skorið verður niður geti menn ekki treyst því að aukið verði við aflahlutdeildina hjá viðkomandi þegar möguleiki er á að auka heildarafla. Enginn getur treyst því. Þess vegna er þetta frumvarp alveg sérstaklega vont.

Hitt er líka að sá rökstuðningur sem settur hefur verið fram í frumvarpinu fyrir því að fara þá leið sem hæstv. sjávarútvegsráðherra leggur nú til að Alþingi Íslendinga leggi blessun sína yfir er afskaplega þunnur. Rökstuðningurinn byggir á því að þessi fisktegund hafi breytt um hegðan, hún finnist nú á fleiri stöðum en áður. Nefna má fjölmargar aðrar fisktegundir sem slíkt hið sama á við um. Það er því enn til að vekja óvissu í kerfinu að úr því að þessi rökstuðningur er notaður alveg sérstaklega og að þennan rökstuðning má nota um aðrar tegundir sér það hver maður sem sjá vill að þar með er enn frekar aukið á þá óvissu sem nú er um framtíð þessa fiskveiðistjórnarkerfis.

Við 1. umr. um þetta mál beindi ég fyrirspurn í umræðunni til hæstv. sjávarútvegsráðherra. Sú fyrirspurn snýr að þeim ákvæðum og þeim aðferðum sem beita á við úthlutun þessara aflaheimilda.

Frú forseti. Í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir því að úthlutunin muni byggja á því að 5 lestum verði hægt að úthluta á hvert skip, Fiskistofa annist úthlutun aflaheimildanna, aflaheimildir sem úthlutað er samkvæmt þessari grein eru ekki framseljanlegar og reiknað er með að innheimt verði ákveðið gjald fyrir þessi kíló sem renni í ríkissjóð.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra svaraði mér ekki við þá umræðu og ég kalla eftir því að hæstv. ráðherra svari nú spurningunni: Hvernig skal með fara ef fleiri útgerðarmenn sækja um kvóta í skötusel og það er raunverulega ekki nóg fyrir þá sem sækja um? Með öðrum orðum, við hvaða reglur ætlar hæstv. ráðherra að búa til að taka á slíkum vanda? Það má augljóst vera að ef það er hagnaður af þessum veiðum, ef menn geta haft af þessu fé, munu mjög líklega fleiri sækja um en pláss er fyrir. Hvernig nákvæmlega hyggst hæstv. sjávarútvegsráðherra taka á því? Það er mjög mikilvægt að því sé svarað áður en þetta frumvarp verður gert að lögum.

Hér hefur verið talað heilmikið um hagkvæmni fiskveiðistjórnarkerfisins og jafnvel látið að því liggja að þær breytingar sem nú er verið að gera séu til þess að auka hagkvæmnina. Það má eiginlega furðulegt heita að hægt sé að komast að þeirri niðurstöðu að það auki hagkvæmni veiðanna að draga svo mjög sem frumvarpið gerir ráð fyrir úr möguleikum á því að leigja til sín eða frá sér aflaheimildir. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því, frú forseti, að hér er um að ræða mjög umdeilt mál. Margir hafa haft á orði að þetta sé galli á kerfinu. Þá verða menn að líta til þess að fyrir þá sem vilja hefja útgerð og eru ekki svo heppnir í lífinu að eiga peninga fyrir er þetta besti og jafnframt eini möguleikinn sem menn hafa á að koma inn í greinina án þess að kaupa sér kvóta. Og kvóti kostar peninga. Með öðrum orðum, til að ýta undir og auðvelda mönnum að koma inn í greinina er nauðsynlegt að það sé svigrúm fyrir leigu, að menn geti leigt til sín aflaheimildir og hafið útgerð. Ef menn geta sótt sjóinn af meira viti og meiri skynsemi og meira kappi en aðrir eða gert meira úr þeim afla sem berst að landi og hagnast betur myndast smám saman arður og hagnaður sem síðan er hægt að nota til að kaupa varanlegar aflaheimildir. Þetta er sú leið sem menn hafa til að fara inn í greinina.

Með því, frú forseti, að draga svo mjög úr þeim möguleika sem þó er í kerfinu til að leigja aflaheimildir er verið að gera nýliðum erfiðara fyrir að fara inn í greinina. Það sem meira er, það er líka verið að draga úr hagkvæmninni. Það er verið að draga úr möguleikum greinarinnar til að aðlaga sig breytingum. Það segir sig sjálft að með minni aðlögunarmöguleikum eru þar með líka minni möguleikar til þess að skapa auð og mynda arð fyrir íslenska þjóð í þessari mikilvægu atvinnugrein.

Hugmyndafræðin um að draga úr möguleikum manna á að færa aflaheimildir til á milli ára sem hefur verið kynnt hér af nokkrum hv. þingmönnum sem ráð til þess að auka möguleika á leigukvóta gengur ekki upp. Ef útgerðarmaður ákveður að geyma sér að veiða eitt tonn í ár þarf hann að veiða það á næsta ári sem þýðir að það er meira magn til á markaði fyrir aflaheimildir á næsta fiskveiðiári. Þetta má vera auðsætt og í stað þess að horfa bara á eitt aflaár geta menn horft á tvö og þá sjá menn auðvitað að niðurstaðan verður nákvæmlega sú sama, sama magn verður veitt þegar menn horfa á tveggja ára tímabil hvort sem meiri eða minni möguleikar eru á því að færa aflaheimildir til á milli ára.

Það yfirlýsta markmið sem kemur fram, bæði hér í umræðu og í frumvarpinu, um að það eigi að auka möguleika á leiguframsali með þessari aðgerð, þ.e. að draga úr færsluheimildunum, stenst enga skoðun. Eftir stendur að verði þetta frumvarp að lögum verður erfiðara fyrir nýliða að koma inn í greinina.

Við skulum líka hugsa okkur að enginn leigukvóti sé til, að það verði sett 100% veiðiskylda, enginn geti veitt á Íslandsmiðum nema eiga kvóta. Hvað þýðir það? Það þýðir að sá sem ætlar að hefja útgerð verður að kaupa sér kvóta á fullu verði. Það er engin leið fram hjá því.

Augljóst má vera, frú forseti, að eftir því sem við aukum veiðiskylduna, því erfiðara verður að komast inn. Því minna framboð sem er á leigukvóta, því hærra verð verður á honum. Ég tel ekki skynsamlegt að haga málum með þessum hætti.

Síðan eru mörg önnur athygliverð ákvæði í þessu frumvarpi. Ég tek undir það sem hefur komið fram hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, ákvæðið um að hæstv. sjávarútvegsráðherra geti hlutast til um það hvernig útgerðir nýti uppsjávarafla sinn, í hvaða vinnsluleiðir aflinn skuli fara, er aldeilis furðulegt. Á hvaða forsendum hyggst hæstv. ráðherra byggja slíkar ákvarðanir? Er hæstv. ráðherra tilbúinn til að birta opinberlega þau viðmið sem hæstv. ráðherra og ráðuneytið hyggjast nota við slíka ákvarðanatöku og með hvaða hætti slík viðmið hæstv. ráðherra telur að séu öðruvísi en þeir útgerðarmenn og þeir sem starfa í greininni nota til að ákveða hvernig skuli farið með þann afla sem veiðist?

Hér er talað um uppsjávartegundir. Ég tel að þetta ákvæði eitt og sér væri nóg til þess að menn höfnuðu þessu frumvarpi. Þó er það ekki stærsti gallinn. Það væri miklu nær að koma þeim veiðum sem menn hafa haft áhyggjur af, m.a. í makríl, í annað fyrirkomulag til að tryggja að við vinnum aflann rétt. Ég held að því miður vanti pólitískt afl til að svo verði.

Aðalatriðið er að sjávarútvegurinn er grundvallaratvinnuvegur okkar Íslendinga. Hann er hryggjarstykkið í hinum dreifðu byggðum landsins. Þessi ríkisstjórn hefur sýnt sig í því að fara bæði fram með skilningsleysi og kunnáttuleysi í þessari grein og um leið líka með þeim hætti að maður velti því fyrir sér hver sé nákvæmlega tilgangur vegferðar ríkisstjórnarinnar. Hver er t.d. tilgangurinn með því að í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar eru sett ákvæði um þjóðnýtingu aflaheimilda, að ríkið kalli til sín bótalaust aflaheimildir sem eru nú nýttar af útgerðum landsins? Hver er tilgangurinn? Jú, að taka inn í ríkissjóð þá peninga, skapa óvissu og gjaldþrot í helstu atvinnugrein þjóðarinnar. Og hver er niðurstaðan? Jú, niðurstaðan er sú að meðan þessi þjóðnýtingarleið hangir inni í stjórnarsáttmálanum, um að þjóðnýta helstu atvinnugrein landsmanna, færa hana alla inn til ríkisins, ríkir óvissan ein. Svo leggja menn saman við það og til viðbótar það frumvarp sem hér er til umræðu og alla þá óvissu sem það kallar yfir greinina, m.a. hvað varðar aflamarkskerfið sjálft, þ.e. hlutdeildina eins og ég fór yfir áðan, hvað varðar það að verið sé að úthluta langt umfram þær heimildir sem Hafrannsóknastofnun hefur lagt til. Þá er ég enn og aftur ekki að tala um nokkur prósentustig heldur allt að 80% fram yfir heimild. Hér er stórlega dregið úr möguleikum nýliða til að koma inn í greinina og það er verið að færa fjármuni úr sjávarútvegi með því að selja þessar aflaheimildir eins og gera á og draga þær inn í ríkissjóð, taka úr atvinnugrein, með því fororði reyndar sem er alveg merkilegt að heyra hér í umræðu að það eigi að taka úr þessari atvinnugrein, sjávarútvegi, peninga til að setja inn í einhverjar aðrar atvinnugreinar með milligöngu og aðkomu stjórnmálamanna. Við ætlum að taka peninga úr sjávarútveginum, ákveðna peninga á hvert kíló, af því að það á að setja þá í uppbyggingu atvinnugreina. Það á sem sagt að keyra niður eina atvinnugrein til að stjórnmálamenn geti notað peningana til að byggja upp aðrar atvinnugreinar. Það sér hver maður hvert svona lagað stefnir.

Það er vont til þess að hugsa að það sé ríkisstjórn hér í landinu sem nálgast þessa grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar með þeim hætti sem raun ber vitni. Það er reyndar sama ríkisstjórn, frú forseti, og hefur á undanförnum mánuðum breytt skattkerfi landsmanna þannig að óvissan öll er orðin miklu meiri. Og það er þannig ríkisstjórn sem hefur haldið á hinu svokallaða Icesave-máli að hún hefur rekið sig á bæði þing og þjóð við afgreiðslu þess máls. Þessi ríkisstjórn hefur staðið gegn því að við nýttum þau tækifæri sem við höfum í orkunýtingu og til að byggja upp stóriðju, þessa þætti sem skipta svo miklu máli til þess að við getum unnið okkur út úr þeim efnahagsörðugleikum sem nú steðja að.

Þetta frumvarp, verði það að lögum, mun einungis valda því að draga mun úr hagkvæmni í íslenskum sjávarútvegi. Ekkert annað mun gerast. Þeir sem halda að hér sé um að ræða eitthvert aukið réttlæti fara að mínu mati villir vegar. Ekkert réttlæti mun koma úr þessu umfram það sem nú þegar ríkir í þessu kerfi. Auðvitað kann réttlæti eins að vera ranglæti annars og enginn er handhafi hins stóra réttlætis.

Skylda okkar er að tryggja að nýting sjávarauðlindarinnar verði sjálfbær en ekki með þeim hætti sem hæstv. sjávarútvegsráðherra leggur upp hér í þessu frumvarpi sem er óábyrgt, ekkert annað en óábyrgt. Það er líka skylda okkar, þingmanna, að tryggja að það séu engar kollsteypur í grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar.

Vissulega er ekki búið að finna upp hið fullkomna fiskveiðistjórnarkerfi. Ég hef margsinnis, bæði úr þessum ræðustól og í ræðu og riti á opinberum vettvangi, bent á að það eru ýmsir gallar sem við þurfum að leiðrétta. Það sem hér er á ferðinni er þó engin leiðrétting á göllum. Hér er einungis verið að búa til galla. Ef ég á að finna eitthvert annað frumvarp sem minnir mig á svona tilraun til að búa til galla er það kannski helst frumvarp sem hæstv. sjávarútvegsráðherra kom í gegnum þingið og snýr að strandveiðum. Það er annað dæmi um það hvernig hægt er að grafa undan fiskveiðistjórnarkerfinu og helstu atvinnugrein landsmanna. Það er þessi mynd, því miður, frú forseti, sem blasir við. Þetta er verkefni okkar í þessari umræðu. Vonandi fer þetta mál aftur til nefndar og við þingmenn Sjálfstæðisflokksins munum gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir að þetta frumvarp verði að lögum. Það er mikið undir. Um er að ræða meginatvinnustarfsemi og meginatvinnugrein þjóðarinnar.