Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. febrúar 2010, kl. 17:43:23 (0)


138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir að gefa mér tækifæri til að koma upp aftur og dýpka kannski aðeins þá pælingu sem ég var með áðan.

Það má vel vera og ég get verið sammála þingmanninum um að í frumvarpinu er í sjálfu sér ekki gengið fram af neinni hörku og að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geri það ekki, enda frekar ljúfur maður, ég get alveg tekið undir það. Aftur á móti hafa yfirlýsingar margra um til að mynda fyrningarleið sem margir tengja þessu frumvarpi — þó að ég ætli ekkert endilega að gera það en það hefur verið gert í umræðunni — og telja að þar sé ekki stigið varlega til jarðar og gengið sé fram í orðræðu sums staðar, ekkert endilega í þingsal en sums staðar og kemur m.a. fram í fjölmiðlum, af nokkurri hörku og nokkurri óbilgirni og það sé sérkennilegt á þeim sama tíma og menn eru að vinna að sáttagjörð á öðrum stað, á öðrum fundi úti í bæ.

Ég hefði talið og það voru bara mín orð og ég var að reyna að tala fyrir því að kannski hefði verið skynsamlegast af ríkisstjórninni í þessu tilviki að setja ekki fram þessa hluti sem eru í sumum tilvikum að rugga bátum, í sumum tilvikum aðeins óvissa og í sumum tilvikum hugsanlega fyrstu skref, hvort sem þau eru þýðingarmikil eður ei, að breytingum sem valda ókyrrð hjá hagsmunaaðilum í sjávarútvegi. En á sama hátt, og ég var reyndar að reyna að segja það í minni orðræðu líka, þurfa hagsmunaaðilar í sjávarútvegi, og kannski ekki síst LÍÚ, að gæta sín í sínum orðum. Það er líklegra til að ná sátt í samfélaginu um þessa mikilvægu (Forseti hringir.) atvinnugrein að menn reyni að vinna í sáttanefndum en séu ekki stöðugt í einhverjum skæruhernaði hingað og þangað.