Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. febrúar 2010, kl. 15:52:27 (0)


138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[15:52]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli þá fyrst fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 116 frá 2006, um stjórn fiskveiða, sem tekur til strandveiða. Um er að ræða 370. mál þingsins.

Eins og kom fram hjá hæstv. forseta hafði hún gert ráð fyrir að tvö frumvörp yrðu rædd saman, annað um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, sem lýtur að strandveiðum, og hitt um breytingu á lögum um veiðieftirlitsgjald, sem lýtur einmitt að sömu lögum en þar sem ekki hefur verið fallist á það, mun ég fyrst mæla fyrir frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða.

Eins og kunnugt er hófust strandveiðar í lok júní 2009 eftir að Alþingi hafði samþykkt ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 66/2009, um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Það sem um var að ræða nýjan flokk veiða voru reglur og skilyrði þeirra sett til eins árs. Boðað var að á grunni reynslu og lærdóms sem draga mætti af strandveiðunum yrði sú reynsla metin. Í þessum tilgangi var Háskólasetur Vestfjarða fengið til að hafa yfirumsjón með og gera úttekt á framgangi og áhrifum strandveiðanna. Úttektin var framkvæmd á tímabilinu september til desember og komu fimm þekkingar- og fræðslumiðstöðvar á landsbyggðinni ásamt háskólasetrinu að úttektinni. Samanlagður fjöldi sem tók þátt í úttektinni telur yfir 300 manns. Í heild er það niðurstaðan að strandveiðarnar hafi gengið vel, þó svo að aflabrögð hafi verið misgóð og afrakstur ólíkur á svæðunum fjórum.

Frú forseti. Ég vil benda á þessa ágætu skýrslu sem heitir Úttekt á framgangi og áhrifum strandveiðanna sumarið 2009 og unnin er af Háskólasetri Vestfjarða eins og ég gat um áðan. Skýrslan er á vef ráðuneytisins og lítur út eins og ég hef lýst. Ég bendi hv. þingmönnum á þessa ágætu skýrslu, sem er bæði mjög vel unnin og þar kemur margt fram sem lýtur að þessum veiðum og hvernig þar tókst til.

Eins og þar segir var landinu skipt í svæði og veiðarnar komu best út á svæði A, frá Eyja- og Miklaholtshreppi eða frá sunnanverðu Snæfellsnesi að Skagabyggð. Svæði C var Þingeyjarsveit að Djúpavogshreppi, en lakari útkoma var fyrir svæði B, sveitarfélagið Skagafjörð að Grýtubakkahreppi og fyrir D, Hornafjörð að Borgarbyggð. Mikil ánægja er meðal strandveiðimanna með veiðarnar og fyrirkomulag þeirra og kemur það mjög vel fram í þessari skýrslu. Styðja þeir langflestir að haldið verði áfram með þær, þó að tilfinningar séu að vísu blendnari meðal annarra hagsmunaaðila sem þarna áttu beinan hlut að máli í veiðum. Er þó mikill meiri hluti á því að strandveiðarnar geti verið leið til að styrkja hinar dreifðu byggðir landsins.

Mat skýrsluhöfunda er að markmiðin með veiðunum hafi að miklu leyti náðst. Það er þó sett fram með þeim fyrirvara að markmiðin voru ekki talin nægilega skýrt tilgreind eða sett fram með ákveðin viðmið. Upp úr standa markmiðin um að gefa fleiri en handhöfum kvóta möguleika á takmörkuðum veiðum í atvinnuskyni, nýliðum, og að auðvelda fólki að afla sér reynslu og þekkingar. Nýliðar voru 20% í hópi þeirra útgerðarmanna sem svöruðu könnun vegna skýrslunnar, að auki má búast við að margir nýliðar hafi verið í hópi þeirra 150 einstaklinga sem auk útgerðaraðila skipuðu áhafnir strandveiðibátanna.

Leyfin til veiðanna söfnuðust ekki á fárra hendur og flestir sem komu að veiðunum voru minni útgerðaraðilar sem töldu sig hafa fengið frá nokkur hundruð þúsund krónum úr veiðunum og upp í milljón. Aflaverðmæti meðalbáts var um 1.550 þús. kr. Aflaverðmæti á bát var mest á svæði C, eða 2,2 millj. kr., en næst kom svæði A með 1,8 milljónir.

Veiðarnar náðu því markmiði að hleypa lífi í minni sjávarbyggðir og styrkja þær. Áhrif á samfélög þessara minni staða virðast hafa verið mjög jákvæð, en ekki er eins augljóst hversu miklu máli veiðarnar hafa skipt fyrir atvinnulífið í heild sinni en þó var það marktækt á ákveðnum stöðum.

Niðurstaða úttektarinnar er sú að margt er hægt að læra af þessari frumraun strandveiðanna. Um fyrirkomulag veiðanna virðist að mestu vera sátt en svæðaskipting og löng tímabil eru atriði sem vert er að skoða betur. Markmiðinu með veiðunum þarf að huga betur að og skilgreina þarf ákveðin viðmið, sérstaklega á þetta við um markmiðin um nýliðun og samfélagsleg og hagræn áhrif veiðanna á dreifðar sjávarbyggðir landsins. Með því eru einnig töluvert meiri líkur á að sátt skapist um strandveiðarnar.

Ég held samt að ástæða sé til að árétta að sérstaklega er kveðið á um það í úttektinni að samfélagsáhrif af veiðunum hafi verið mjög jákvæð, eins og segir orðrétt í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Veiðarnar náðu því markmiði að hleypa lífi í minni sjávarbyggðir landsins. Áhrif á samfélög þessara minni staða virðast hafa verið mjög jákvæð en áhrif veiðanna á atvinnulíf eru ekki eins augljós. Hafa verður í huga að veiðarnar voru takmarkaðar við 4.000 tonn af þorski og dreifðust á 54 útgerðarstaði. Byggðasjónarmiðin með veiðunum hafa náðst að því leyti að veiðarnar voru að mestu stundaðar fjarri suðvesturhorni landsins og hafa skipt máli fyrir afkomu útgerðaraðila þar.“

Ég dreg þetta fram, frú forseti, vegna þess að meginmarkmiðin voru ekki hvað síst þessi samfélagslegu áhrif af aðgerðunum sem einmitt eru mikilvæg fyrir þessa grein.

Ég vil áfram og aftur ítreka sérstaka ánægju með vinnu háskólasetursins á Ísafirði að þessu máli. Reynt hefur verið í þessu frumvarpi að taka tillit til athugana svo sem kostur er. Jafnframt vildi ég að þetta vinnulag, að fá fram úttekt á fyrirkomulagi í fiskveiðistjórninni svona sértækt áður en það er endanlega lögfest, hljóti að teljast til vandaðra vinnubragða og óskandi að við getum viðhaft slíkt vinnulag um fleiri þætti í þessum efnum í framtíðinni.

Frumvarpið um strandveiðarnar, mál 370, gerir ráð fyrir að heimild til strandveiða verði lögfest og fyrirkomulag veiðanna verði í meginatriðum það sama og í fyrra. Þannig er gert ráð fyrir að strandveiðar muni einkum takmarkast af þeim aflaheimildum sem ráðstafað er sérstaklega til veiðanna, eða allt að 6.000 lestum af óslægðum botnfiski. Í fyrra var þessi heimild 2.900 tonn af óslægðum þorski. Gera má ráð fyrir að tekið sé mið af samsetningu veiðanna í fyrra sem hófust 25. júní, að þetta þýði að þorskafli á þessu ári verði um 5.000 tonn, en aðrar tegundir um 1.000 tonn. Með öðrum orðum, hér er lögð til um 1.000 tonna aukning á þorski frá því á fyrra ári, enda er vonast til að tímabilið allt verði nú nýtt eins og hér er gert ráð fyrir.

Þær breytingar sem gerðar eru frá síðastliðnu sumri og koma fram í frumvarpinu eru helstar:

Í fyrsta lagi að á hverju fiskveiðiári verði aflaheimildir sem nema allt að 6.000 lestum af óslægðum botnfiski til ráðstöfunar til að veiða á handfæri, eins og áður segir, sem ekki reiknast til aflamarks eða krókaflamarks þeirra fiskiskipa sem stunda veiðarnar. Heimilt verði að stunda veiðarnar á tímabilinu frá 1. maí til 31. ágúst. Á síðasta ári hófust veiðarnar í lok júní og stóðu fram í ágúst. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að veiðitímabilið verði fjórir mánuðir og með því að leggja til að veiðar geti hafist í maí er gert ráð fyrir að veiðar við sunnanvert landið verði auðveldari með tilliti til staðbundinnar fiskgengdar. En eins og við þekkjum getur fiskgengd á miðin á grunnslóð verið breytileg eftir landshlutum, hún getur gengið fyrr við suðvesturhornið og þess vegna er ástæða til að reyna að taka tillit til þess.

Í öðru lagi er í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra fái heimild til skiptingu afla á svæði og tímabil. Í bráðabirgðaákvæðinu frá því í fyrra var þessi skipting lögfest. Með því að nú er gert ráð fyrir lögfestingu á strandveiðum til framtíðar, verður að gera ráð fyrir að skiptingu sé hægt að hnika til án sérstaks lagafrumvarps miðað við ófyrirsjáanlegar breytingar, sé talin þörf á þeim framkvæmdaþáttum.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því að hverri útgerð verði einungis heimilt að fá leyfi til strandveiða fyrir eitt fiskiskip. Takmörkun þessi er sett með tilvísun til þess markmiðs að sem flestum verði gert kleift að stunda strandveiðar. Af þessu leiðir að ekki er gert ráð fyrir að einn aðili geri út mörg veiðiskip á strandveiðum.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir því að frá fiskveiðiárinu 2010/2011 verði óheimilt að veita fiskiskipum leyfi til strandveiða hafi aflamark umfram það aflamark sem flutt hefur verið til þess á sama fiskveiðiári verið flutt af því. Eftir útgáfu leyfis til strandveiða er skipi óheimilt að flytja frá sér aflamark þess árs umfram það sem flutt hefur verið til skips. Ekki þykir ástæða til þess að veita útgerð strandveiðileyfi í framtíðinni sem velur að flytja frá sér aflamark umfram það aflamark sem flutt er til skipsins.

Í fimmta lagi er gert ráð fyrir að ráðherra verði heimilt með reglugerð að banna strandveiðar á almennum frídögum. Síðastliðið sumar varð vart mikils áhuga á að heimila ekki veiðar t.d. á frídegi verslunarmanna, m.a. þar sem möguleikar til að landa afla á markað voru mismunandi. Er með þessu ákvæði frumvarpsins ráðherra veitt skýlaus heimild til að taka tillit til slíkra aðstæðna.

Í sjötta lagi að hverju fiskiskipi verði heimilt að draga 650 kg í þorskígildum talið af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð. Þannig er afli hverrar veiðiferðar takmarkaður við 650 kg af kvótabundnum tegundum í þorskígildum. Er þetta breyting frá fyrra ári þegar heimilt var að veiða 800 kg af kvótabundnum tegundum án viðmiðunar við þorskígildi. Um sambærilegt magn er þar að ræða þar sem þorskígildin eru nú látin ráða. Með þessu móti er jafnframt dregið úr hvata til brottkasts á öðrum tegundum en þorski.

Það er von mín að frumvarpi þessu verði vel tekið því að fyrir liggur að strandveiðar hafa sannað gildi sitt. Kostir þeirra eru margvíslegir líkt og ég hef vísað til í úttekt Háskólaseturs Vestfjarða og einnig kom fram í ágætri meistaraprófsritgerð Gísla H. Halldórssonar á Ísafirði sem einmitt var greint frá í fréttum fyrir nokkru síðan.

Frú forseti. Tiltekið er að afli í strandveiðum reiknast ekki til aflamarks eða krókaflamarks fiskiskipa og á það er lögð áhersla hér að engin leiga er tekin fyrir þær aflaheimildir.

Með frumvarpi þessu, frú forseti, er umsögn frá fjármálaráðuneytinu, þar sem segir svo:

„Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir því að kostnaður Fiskistofu vegna aukins eftirlits með strandveiðum verði greiddur af leyfisgjaldi til strandveiða sem er kr. 17.500 skv. lögum nr. 33/2000. Miðað við reynslu af strandveiðum sumarið 2009 má gera ráð fyrir að allt að 500 aðilar taki þátt og greiði tæpar 9 millj. kr. í leyfisgjald. Auk þess má gera ráð fyrir einhverju auknu álagi við starfrækslu stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar eins og á síðasta ári, sem ætti þó ekki að vera umfram það sem rúmast innan fjárheimilda stofnunarinnar. Er því ekki gert ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.“

Ég vil í þessu sambandi líka víkja að atriði sem hefur verið minnst á í tengslum við strandveiðarnar og það er meðferð og nýting aflans sem berst að landi. Nefnt hefur verið að í einstaka tilfellum hafi aflinn kannski ekki uppfyllt öll þau gæði sem hefur verið krafist í þeim efnum, fyrsta flokks gæðum. Í áðurnefndri skýrslu er þó tiltekið að það hafi að langmestu leyti verið í góðu lagi. Hins vegar höfum við rætt það við Landssamband smábátaeigenda að haldið verði sérstakt námskeið fyrir þá sem vilja í meðferð á afla, þannig að hægt verði að fylgja þessum gæðaþáttum eftir sem allra best vítt og breitt um landið.

Einnig hefur sýnt sig að mikilvægt er að það sé gott samstarf á milli Landhelgisgæslunnar og Fiskistofu, sem er, en við höfum einmitt gert ráð fyrir því að þessir aðilar ræði þetta sérstaklega fyrir næsta sumar, hvernig hægt er að standa sem best þar að málum.

Ég vil ítreka það og minna á að strandveiðarnar sem hófust á síðastliðnu sumri hafa að mínu viti svo sannarlega sannað gildi sitt. Ég leyfi mér að minna á hér í lokin bréf sem sjávarútvegsráðherra barst hinn 18. nóvember síðastliðinn, undirritað af 183 íbúum af rúmlega 500 í Langanesbyggð. Í bréfinu er komið fram þökkum fyrir strandveiðikerfið og það mikla líf sem það hleypti í hafnir landsins síðastliðið sumar, eins og stendur í því bréfi. Að auki var tilgreint að í Langanesbyggð hefðu um 25 einstaklingar haft beina vinnu af róðrum í strandveiðikerfinu, auk afleiddra starfa. Þarna var því um kæra búbót að ræða.

Frú forseti. Þó að frumvarp þetta láti ekki mikið yfir sér er alveg augljóst að það hefur gríðarlega þýðingu fyrir þær byggðir sem þarna eiga í hlut og einnig opnar það möguleika fyrir aðra en þá sem eiga kvóta til að komast inn í fiskveiðar þó að með takmörkuðum hætti sé.

Frú forseti. Ég óska eftir því að málið gangi að lokinni umræðu til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.