Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. febrúar 2010, kl. 16:16:07 (0)


138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[16:16]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef menn halda að sjávarútvegskerfið rústist vegna þess að opnað er á afmarkaðar strandveiðar þá eru stoðir þess veikar. Hitt er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni (Gripið fram í.) að mjög mikilvægt er að hugsa þetta sem hluta af heild og það er einmitt það sem verið er að gera hér. Ég vitna líka til þessarar ágætu skýrslu, en þar var gerð úttekt sem sýnir að þetta hafi haft mjög jákvæð áhrif. Aflinn berst að landi, aflinn er unninn. Það var minnst á það að aðeins um 18% aflans hefðu verið unnin í heimabyggð en nærri 100% voru samt unnin hér á landi, þannig að þótt aflinn færi á markaði þá var hann unninn annars staðar á landinu. Sá afli sem kom að landi á þessum tíma var unninn hér á landi. Ég hef komið í fiskvinnslur sem fögnuðu því að geta náð í þann fisk sem kom að landi í gegnum strandveiðarnar einmitt yfir sumartímann þegar erfitt var að fá fisk frá hinni hefðbundnu útgerð. Með þeim hætti kom afli strandveiðanna inn í minni fiskvinnslurnar sem eru líka með gríðarlega mikilvæga markaði erlendis. Strandveiðarnar komu mjög jákvætt út og voru mikilvægar og ég held að þær muni áfram reynast það í sumar.

Ég vil bara áfram og aftur ítreka að það er ekki út af engu, ekki út af því að menn hafi verið ánægðir með kerfið sem fyrir var, að 183 íbúar Langanesbyggðar í norðausturhluta landsins sendu sérstakt bréf og fögnuðu því framtaki að koma á strandveiðum og ég held að það segi meira en margar ræður og (Gripið fram í.) mörg orð í þeim efnum, frú forseti.