Staða atvinnulausra

Fimmtudaginn 18. febrúar 2010, kl. 11:26:21 (0)


138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

staða atvinnulausra.

[11:26]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Mér er afar hugleikin staða atvinnulausra. Það vildi svo til að ég var á atvinnuleysisskrá áður en ég fékk þessa vinnu og þekki mjög vel hvernig er að vera atvinnulaus á Íslandi. Ég þekki líka vel til hugarfarsins gagnvart þeim sem hafa ekki vinnu og ef eitthvað er er mjög brýnt að hugarfar gagnvart atvinnulausu fólki breytist. Það að skilgreina atvinnulaust fólk þannig að það sé glæpamenn upp til hópa, fólk sem er tilbúið til að svindla á kerfinu, er ekki rétt leið. Það að hafa útbúið þannig kerfi að atvinnulausir eigi að klaga aðra atvinnulausa og segja að þeir séu að svindla er ekki góð leið. Það er ekki sú leið sem ég vil fara á Íslandi. Mig langar ekki að búa í Kína.

Mér finnst mjög brýnt að búinn sé til vettvangur fyrir atvinnulausa þannig að þeir geti tengst. Ég þekki það af eigin reynslu að enginn er betri en sá sem er í stöðunni til að koma með tillögur að úrræðum. Því held ég að það væri mjög gott ef við gætum nýtt okkur eitthvert fyrirbæri eins og þjóðfundinn. Er ekki hægt að hafa þjóðfund atvinnulausra? Gæti þá ekki ríkið a.m.k. reddað húsnæðinu þannig að fólk gæti unnið að því hvernig við gætum hjálpað okkur? Hvað er það sem við þurfum? Mér finnst mjög furðulegt að það séu eingöngu skammtímaúrræði fyrir t.d. einyrkja. Fólk sem er með eigin atvinnurekstur má ekki vinna inn — segjum að ég væri að vinna sem hönnuður og ég ynni ekki alveg upp í lágmarkið, þá má ég ekki lengur fá það sem vantar upp á. Mér finnst mjög brýnt að við hættum að hugsa í skammtímaúrræðum og förum að hugsa í langtímaúrræðum. Ég kalla eftir því. Svo er kominn tími til að þessi ríkisstjórn horfist í augu við að við getum ekki rekið hér norrænt velferðarkerfi undir stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það er mjög brýnt (Forseti hringir.) að við horfumst í augu við það.

Síðan langar mig að hvetja atvinnulaust fólk til að mynda með sér (Forseti hringir.) einhvers konar félagasamtök, hagsmunasamtök atvinnulausra. Ég skora á þjóðina og þá sem eru atvinnulausir (Forseti hringir.) að gera það.