Fjárhagsleg staða Álftaness og annarra sveitarfélaga

Mánudaginn 22. febrúar 2010, kl. 15:57:27 (0)


138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

fjárhagsleg staða Álftaness og annarra sveitarfélaga.

[15:57]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir að eiga frumkvæðið að þessari umræðu hér í dag. Úr því sem komið er í þeirri erfiðu fjárhagsstöðu sem Sveitarfélagið Álftanes er í er það fagnaðarefni að fjárhaldsstjórn sé komin í sveitarfélagið. Það er mjög brýnt verkefni að koma fjármálum þess í sjálfbært horf þannig að tekjugrunnur sveitarfélagsins standi til lengri tíma litið undir skuldunum. Til þess þarf aðkomu fjárhaldsstjórnarinnar til að endurskipuleggja skuldir sveitarfélagsins. Þar þurfum við að velta við hverjum steini og ríkisvaldið þarf að koma að til að koma skuldsetningunni í eðlilegt horf.

Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að ætla íbúum að bera, annars vegar í þjónustuskerðingu og hins vegar í hækkuðum gjöldum. Fólk er auðvitað frjálst að því að flytja. Þarna er um hárfína línu að ræða. Ég hef hrifist af því að sjá vakninguna meðal íbúa Álftaness og vilja íbúa til að taka á sínum málum. Það var athyglisvert að sjá fundahöldin um helgina og mjög jákvætt að sjá þann víðtæka vilja sem þar kom fram til að íbúar kæmu að málinu og hefðu eitthvað um það að segja með hvaða hætti þeir öxluðu byrðar. Auðvitað er eðlilegt að íbúar hafi ákveðið svigrúm til að velja með hvaða hætti þeir axla byrðarnar. Margar athyglisverðar hugmyndir komu þar fram.

Það er mikilvægt að við leggjum sem fyrst traustan grunn undir þetta sveitarfélag. Það er ekki rétt sem hér var sagt, að einhverjar aðgerðir núverandi ríkisstjórnar á síðasta ári hefðu skapað þennan vanda. Vandinn er afleiðing af (Forseti hringir.) stjórnlitlu skipulagskerfi og því að við höfum ekki haldið nægilega vel utan um fjármál sveitarfélaganna á undanförnum árum.