Fjárhagsleg staða Álftaness og annarra sveitarfélaga

Mánudaginn 22. febrúar 2010, kl. 15:59:49 (0)


138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

fjárhagsleg staða Álftaness og annarra sveitarfélaga.

[15:59]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum fjárhagsvanda Sveitarfélagsins Álftaness í Suðvesturkjördæmi. Mér er spurn í þessari umræðu hér sem og annars staðar um vanda sveitarfélaga: Hver er ábyrgð hins fjölskipaða valds, bæjarstjórnar, í nútíð og framtíð? Hver ber í raun ábyrgð á þeim offjárfestingum sem ráðist er í í sveitarfélögum? Er það ekki grunnspurning sem við stöndum frammi fyrir?

Sveitarfélagið Álftanes hefur offjárfest og bundið sig með skuldbindandi samningum vegna leigu á íþróttahúsi og sundlaug, vegna leigu á þjónusturými fyrir aldraða og vegna leigu á þjónustubyggingu sem er á núvirði 4,1 milljarður kr. Það gefur augaleið að sveitarfélag af stærð Álftaness mun aldrei standa undir slíkum skuldbindingum. Þess vegna þarf að velta fyrir sér ábyrgð þess fjölskipaða valds og með hvaða hætti það fer með valdið í sveitarfélaginu.

Hér sem og annars staðar þarf líka að huga að því að sveitarfélögin eiga að veita lögbundna þjónustu. Undir henni þurfa þau að standa. Hvernig fara þau að því? Hvar ná þau í fjármagn? Það eru tekjur sveitarfélagsins, tekjur íbúanna, sem standa undir slíkri lögbundinni þjónustu. Verðum við þá ekki að velta fyrir okkur, og hæstv. samgönguráðherra sem fer með byggðamálin, hvort við þurfum að skoða að sveitarfélögunum eigi einfaldlega að vera óheimilt að taka lán í annarri mynt en þeirri sem tekjuöflun þeirra er í? Ef svo væri stæði Sveitarfélagið Álftanes ekki í þeim sporum sem það stendur nú í, frekar en mörg önnur sveitarfélög á landinu.

Ég bið menn um að fara varlega í sameiningaráformum undir slíkum kringumstæðum. Ég bið menn um að fara varlega í því að koma með ríkissjóð (Forseti hringir.) að þeim vanda sem við blasir. Ég bið menn um að skoða hvað þarf að gera, horft til framtíðar en ekki fortíðar, til að koma í veg fyrir að sveitarfélög offjárfesti með þessum hætti og standi frammi fyrir slíkum vanda.