Fjárhagsleg staða Álftaness og annarra sveitarfélaga

Mánudaginn 22. febrúar 2010, kl. 16:11:51 (0)


138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

fjárhagsleg staða Álftaness og annarra sveitarfélaga.

[16:11]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem hér er. Þótt hún standi aðeins í hálftíma hefur hún verið góð. Hún hefði sannarlega þurft að vera meiri en það gefst kannski tækifæri til þess síðar. Ég kemst ekki yfir allar þær spurningar sem hér hafa komið fram en vil þó svara hv. þm. Siv Friðleifsdóttur varðandi sameiningu eða skoðanakönnun. Ég hef séð þetta líka, eða lesið, að þar var samþykkt að gera skoðanakönnun meðal íbúa. Það finnst mér ágætt. Hvað varðar sameiningu er það seinni tíma mál. Fjárhaldsstjórnin vinnur núna, hún getur skilað tillögum sínum og þar með lagt til að það þurfi að fara í sameiningu og þá er hlutverk ráðuneytisins að fara í það.

Aðeins varðandi það sem hér hefur komið fram: Hver er ástæðan og hver ber ábyrgð á þessu? Auðvitað er það sambland af hruninu sem varð — þetta sveitarfélag skuldaði mikið í erlendri mynt — og offjárfestingar sem hefur gert þetta að verkum. Talað hefur verið um fjármálareglur og annað slíkt fyrir sveitarfélögin — já, það er verið að vinna að þeim í góðri sátt við Samband íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðuneytið og vonandi tekst það núna fyrir sumarbyrjun eða fyrir haustið.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði fyrr í þessari stuttu umræðu, sem ég þakka fyrir, er alveg ljóst að það hefur verið staðfest hér og öllum er kunnugt að fjárhagsvandi Sveitarfélagsins Álftaness er gríðarlegur og á honum verður ekki tekið með því einu að hækka álögur á íbúa eða skera niður þjónustu í sveitarfélaginu. Það vil ég taka alveg skýrt fram. Hvort tveggja á sér ákveðin sársaukamörk sem ég hef skilning á og þess vegna féllst ég á þessar álögur, hvort sem við köllum þær hóflegar eða minni álögur en hægt var að gera miðað við sveitarstjórnarlög. Þetta er risavaxinn vandi. Ég vek athygli á því að slíkar álögur eru aðeins tímabundnar og það er stefna mín að þessar álögur lækki sem allra fyrst eins og við sjáum að nú er að gerast í Bolungarvík.

Virðulegi forseti. Ég fagna því líka að utan við hinn pólitíska ramma á Álftanesi séu komin upp samtök íbúa í sveitarfélaginu sem vilja taka saman höndum með sveitarstjórn og öðrum og vinna með fjárhaldsstjórninni og sveitarstjórninni við að tryggja forgangsröðun og fleira. Ég hitti þau áðan og þau afhentu mér lista sem er yfirlýsing og undirskriftasöfnun sem á eftir að bæta við. Ég fagna því og ég sagði við þetta ágæta fólk sem þar kom (Forseti hringir.) að þau væru velkomin í ráðuneytið þegar þau væru búin að ganga í öll hús í bænum og útfæra tillögur sínar sem þau sjá í rekstri sveitarfélagsins. Þá eru þau velkomin í ráðuneytið til að koma því á framfæri en ég minni á að fjárhaldsstjórn hefur tekið yfir fjárhag (Forseti hringir.) sveitarfélagsins og vinnur að fjárhagslegri endurskipulagningu, ekki ráðuneytið sem slíkt.