Dómstólar

Þriðjudaginn 23. febrúar 2010, kl. 14:53:42 (0)


138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

dómstólar.

390. mál
[14:53]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég fagna þessu frumvarpi og tel það fela í sér mikilsverða réttarbót. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir frumkvæðið sem hún hefur sýnt með framlagningu þess. Þar er lagt til að dómsmálaráðherra skipi fimm menn í dómnefnd til að fjalla um hæfni umsækjenda í embætti hæstaréttardómara og héraðsdómara. Þetta fyrirkomulag hefur gengið um héraðsdómara í mörg ár og reynst afar vel þó að undantekningar hafi verið á því, tvö tilvik á gráu svæði má segja og eitt vel út fyrir gráa svæðið. Það kerfi gagnvart héraðsdómurum hefur reynst afar vel.

Núverandi kerfi hefur sætt gagnrýni sem um ýmislegt hefur átt rétt á sér, en sú gagnrýni lýtur þó einkum að því hvernig fyrrverandi dómsmálaráðherrar hafa lesið út úr umsóknum og valið. Þeir hafa ekki verið bundnir af niðurstöðu umsagnar Hæstaréttar sem að mínu mati hafa ævinlega verið málefnalegar og býsna vel rökstuddar. Frjálst val dómsmálaráðherra hefur á stundum gengið þvert á umsagnirnar og í einu tilviki brotið gegn jafnréttislögum. Ég hygg að það kerfi sem hér er sett upp komi í veg fyrir að geðþótti ráði um val á dómurum sem gegna svo mikilvægu hlutverki í okkar þrískipta ríkisvaldi, dómsvaldi, framkvæmdarvaldi og löggjafarvaldi. Þetta stuðlar að því að hver þessara þriggja valdþátta geti haft betra eftirlit með hinum valdþáttum ríkisins. Það ber að tryggja. Sú hugmynd sem liggur þar að baki er góð þótt gömul sé.

Það eina sem ég velti fyrir mér um þetta frumvarp, og hefur verið þeim nefndarmönnum sem hafa unnið þetta ágæta starf umhugsunarefni líka, og kemur væntanlega til skoðunar í allsherjarnefnd er hvort áskilja eigi að ef niðurstöðu dómsmálaráðherra verði skotið til Alþingis verði aukinn meiri hluti að baki ákvörðunum þess. Þá held ég að við séum algjörlega búin að koma þessu í horf sem horfir til bests vegar að mínu mati. Hvort sá aukni meiri hluti sé tveir þriðju eða hvað annað læt ég liggja á milli hluta en ég styð þær hugmyndir sem þá komu fram um að aukinn meiri hluti Alþingis stæði á bak við slíka tillögu.