138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki beint að blanda mér í þá umræðu sem varð á undan en ég tel að það skipti miklu máli að núverandi ríkisstjórn hætti að setja sífellt fótinn fyrir atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Hv. þm. Ögmundur Jónasson virðist hafa gert það að ákveðnu markmiði hjá sér ásamt flokksmönnum sínum í flokki Vinstri grænna.

Ég kom upp til að ræða annað mál sem ætti einmitt að vera mál (Gripið fram í.) sem skipti Vinstri græna (Gripið fram í.) miklu. Það varðar umhverfisstefnu ríkisstjórnarinnar. Það er náttúrlega stórt mál en eins og ég hef upplifað hana virðist hún fyrst og fremst ganga út á að setja fótinn fyrir atvinnuuppbyggingu og virkjanir sem framleiða endurnýjanlega orku, eins og það sé það allra versta sem við mögulega getum gert. Ég hef mikinn áhuga á að heyra frá hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, sem er formaður umhverfisnefndar og fyrrverandi umhverfisráðherra, þótt hún komi úr hinum stjórnarflokknum, hvað líði t.d. vistvænni innkaupastefnu sem var samþykkt af ríkisstjórninni í mars 2009. Ég kíkti inn á heimasíðuna hjá fjármálaráðuneytinu sem er það ráðuneyti sem á að innleiða þessa innkaupastefnu. Það hefur mjög lítið verið gert til að koma því í framkvæmd t.d. hjá Ríkiskaupum eða Framkvæmdasýslu ríkisins. Ef við tökum t.d. Alþingi sem stofnun hef ég ekki séð miklar breytingar verða þar síðan græn ríkisstjórn tók við völdum. Þegar ég kíki á þau mál sem eru þegar komin inn í þingið sé ég eina stjórnartillögu sem er komin frá umhverfisráðherra og hún er um náttúruverndaráætlun 2009 og 2013. Hvenær förum við að sjá merki þess að þessi ríkisstjórn vilji gera líf Íslendinga, líka þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu, ekki bara þeirra sem búa úti á landi, umhverfisvænna þannig að við getum öll farið að lifa vistvænna og umhverfisvænna lífi án þess að þurfa að hafa sérstaklega mikið fyrir því sjálf? Hvenær förum við að sjá votta fyrir þessari grænu framtíð sem Vinstri grænir ályktuðu og skrifuðu fallegan bækling um?