138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að blanda mér aðeins í umræðuna um fyrirhugaða uppbyggingu á einkasjúkrahúsi suður með sjó. Verkefnið lítur svona út: Ríkið leggur út 100 millj. kr. til að taka gamlan herspítala og breyta honum í nútímasjúkrahús. Inn á þetta sjúkrahús eiga að koma útlendingar sem borga fyrir það. Þeir eru tryggðir upp í topp þannig að ef einhver þeirra þarf að leita á náðir hins opinbera heilbrigðiskerfis eru það ekki íslenskir skattgreiðendur sem eiga að borga það heldur erlend tryggingafélög. (Gripið fram í.)

Það er hins vegar ekki svo um hinn almenna ferðamann sem kemur hingað til landsins. Verði hann fyrir slysi og þurfi að leita á náðir hins opinbera eru það íslenskir skattgreiðendur sem þurfa að greiða fyrir það. Það þýðir þá að það er væntanlega betra fyrir íslenska skattgreiðendur að sem flestir komi í gegnum einkasjúkrahúsið suður með sjó en að þeir komi hingað til lands sem almennir ferðamenn.

Ég lít svo á að þetta sé gríðarlegt hagsmunamál fyrir heilsuferðaþjónustu á landinu. Þetta mundi auka verðmæti vallarsvæðisins til mikilla muna með því skapa fjölmörg sjálfbær störf suður með sjó og við eigum ekki að standa í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu. Ef við getum skapað 300 störf fyrir 100 millj. kr. fjárfestingu segi ég: Það væri ráð. Við værum í góðum málum ef fleiri landsmenn mundu sýna sama kraft, sama dug og sömu áræðni og menn gera suður með sjó því að þar nýta menn verðmæti til góðs. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)