Stjórnsýslubreytingar vegna mögulegrar aðildar að Evrópusambandinu

Miðvikudaginn 24. febrúar 2010, kl. 14:28:17 (0)


138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

stjórnsýslubreytingar vegna mögulegrar aðildar að Evrópusambandinu.

377. mál
[14:28]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Staðan í því máli sem hér er spurt um er alveg skýr í dag. Við vitum hvað Alþingi Íslendinga setti háar upphæðir í aðildarumsóknina á yfirstandandi fjárhagsári. Það er í hendi Alþingis Íslendinga að útdeila þeim fjármunum til næstu ára eftir því sem þurfa þykir. Við erum í ferli þar sem væntanlega verða formlegar umræður innan einhverra vikna. Ferlið snýst um það að semja um skilyrði aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Við höfum ekki séð fyrir endann á því ferli. Við vitum ekki hvernig sá samningur lítur út og það verður ekki fyrr en hann liggur á borðinu og hefur verið kynntur rækilega allri íslensku þjóðinni sem þingmenn geta komið upp með eintómum upphrópunum, hvort sem þær eru já eða nei, og talið sig vita (Forseti hringir.) um hvað málið snýst.